133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[10:03]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Árið 2003 gerði ríkisstjórnin samkomulag við eldri borgara um breytingu á lífeyriskjörum þeirra og önnur mál er varða aldraða. Það var að fullu staðið við þetta samkomulag af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi.

Í ár var aftur gert samkomulag við eldri borgara og frumvarpið sem við afgreiðum hér er afrakstur þess samkomulags. Það liggur fyrir í nýsamþykktum fjárlögum fyrir næsta ár að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefur ákveðið verulega aukningu fjár til þessa málaflokks.

Hæstv. forseti. Þar að auki hefur meiri hluti heilbrigðisnefndar lagt til verulegar hækkanir til viðbótar eða samtals um 2,3 milljarða kr. til ársins 2010. Það þýðir að á næstu fjórum árum, til ársins 2010, ætlar ríkisstjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi að verja 29 milljörðum kr. aukalega, (Gripið fram í.) til viðbótar, (Gripið fram í: Hverju?) til málefna aldraðra. Það eru 29 þús. millj. kr., hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ættu að skammast sín (Gripið fram í.) og reyna að viðurkenna það sem vel er gert. Hér er um stórkostlegt átak að ræða í málefnum aldraðra og það er skömm að því hvernig hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haldið hér uppi yfirboðum á þeim grundvelli að aldraðir hafi verið beittir einhvers konar nauðung, (Gripið fram í.) hótunum eða ofbeldi af hálfu stjórnvalda. (Gripið fram í: Þeir segja það sjálfir.)