133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[10:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins að hér eru kjör aldraðra bætt (Gripið fram í.) og því ber að fagna. (GÓJ: Sko til.) Hins vegar ættu þeir sem hingað koma til þess að skammast og bölva og ragna í ræðustól að skammast sín fyrir að gera þetta ekki nema korteri fyrir kosningar, að efna það sem var samningur eftir að þeir hafa kroppað milljarða á milljarða ofan árum saman með skattahækkunum og hvers konar skerðingum. (Gripið fram í: Hvaða bull er þetta!) Batnandi fólki er best að lifa. En hins vegar batnar þessum heldur seint. Þetta er þó betra en ekki neitt. Það er hins vegar til marks um innihald og eðli þessa samkomulags að það er verið að ávísa því á næstu ríkisstjórn sem núverandi ríkisstjórn mun engu ráða í. Þeir sem við taka munu glaðir taka við efndum þessa og bæta í til þess að standa við eigin loforð.

Við setjum (Gripið fram í.) fólk í fyrirrúm og efnum þau loforð og það er það sem skiptir máli.