133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[10:42]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um að halda áfram gjaldtöku af öllum húseigendum í landinu. Það tengist verkefni sem hófst árið 2000 og átti að standa í nokkur ár. Verkefnið hefur algjörlega farið úr böndum og virðist vera endalaust. Það er ekki hægt að fá neinar upplýsingar um það af hálfu þingmanna hversu mikill stofnkostnaður er og hversu mikið fer í rekstur. Verkefnið átti upphaflega að kosta 650 millj. kr. Það sér ekki enn fyrir endann á því en kostnaðurinn hefur hins vegar fjórfaldast og er núna nálægt 2,5 milljörðum. Það er ekkert sem bendir til þess að verkefnið sé búið og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði hér í gær í umræðunum að við værum stödd í miðri á. Hann sér ekkert fyrir endann á því. Enn er gjaldtökunni haldið áfram. Ég vil þó segja það, meiri hlutanum í nefndinni til hróss, að hann leggur til að gjaldtakan verði einungis framlengd um eitt ár í staðinn fyrir tvö en ég er á móti þessum vinnubrögðum. Ég er á móti þeirri sóun sem í þessu felst og ég er á móti því skipulagsleysi sem þetta verkefni er tákn um og ég greiði atkvæði gegn (Forseti hringir.) þessum tillögum.