133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[11:16]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna frumvarpi þessu að því leyti að hér er verið að gera Hólaskóla formlega að háskóla. Við höfum barist fyrir því undanfarin ár að efla háskólamenntun úti á landsbyggðinni sem og hér á höfuðborgarsvæðinu og fjölga námstækifærum og námsleiðum fólks úti á landi að háskólamenntun sem og framhaldsskólamenntun.

Þegar uppbygging framhaldsskólanna og fjölbrautaskólanna stóð hvað hæst úti á landi átti sér stað mikil bylting í búsetuháttum fólks úti á landi og aðgengi að menntastofnunum. Það sama þarf og á að eiga við um háskólastofnanirnar. Þess vegna er það fagnaðarefni að háskólar skuli dafna og vera stofnsettir úti á landi eins og háskólinn á Bifröst, Hvanneyri, Akureyri og nú á Hólum. Í því sambandi bendum við á mikilvægi þess að byggja sérstaklega undir háskólamenntun um fjarnám hjá fræðslunetunum víða um land og fögnum um leið því skrefi sem hér er stigið.