133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[11:56]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fyrsta málið sem stjórnarandstaðan flutti sameiginlega á þingi þegar þing kom saman í haust laut að réttarstöðu aldraðra og öryrkja og fól í sér verulegar bætur á kjörum þeirra og verulega réttarbót fyrir aldraða. Það frumvarp hefur ekki náð fram að ganga en það hefur þó haft þær afleiðingar að ríkisstjórnarflokkarnir hafa séð að sér í þessum málum og í sinni panikstjórnun sem einkennir þingstörfin við afgreiðslu fjárlaga á lokadögum þingsins fyrir jól hafa þeir gert nokkrar úrbætur á málefnum aldraðra sem endurspeglast í því frumvarpi sem hér er til 3. umr. og til afgreiðslu.

Vegna þess að þarna hafa náðst fram ákveðnar réttarbætur munum við greiða þessu frumvarpi atkvæði okkar, við í Samfylkingunni eins og stjórnarandstaðan öll, en hljótum að minna á það um leið og við greiðum atkvæði að þessi ríkisstjórn sem hefur setið í 12 ár hefur bæði gengið verulega á Framkvæmdasjóð aldraðra og tekið fjármuni úr sjóðnum í önnur verkefni þótt örlitlum hluta þess hafi verið skilað í því frumvarpi sem varð að lögum hér með samþykkt þingsins áðan.

Það eru líka ákveðnar réttarbætur í þessu máli sem lúta að frítekjumarki og því að aðeins eru lagfærð þau áhrif sem tekjur maka hafa á lífeyrisþega en ríkisstjórnarflokkarnir höfðu áður greitt atkvæði gegn því að aldraðir og öryrkjar hefðu 70 þús. kr. frítekjumark á mánuði sem átti einmitt að verða hvatning til sjálfsbjargar fyrir þessa hópa. Þeir hafa líka greitt atkvæði gegn því að algjör aðskilnaður yrði fyrr á milli tekna maka og tekna lífeyrisþega sem átti að verða til þess, samkvæmt tillögum stjórnarandstöðunnar, að auðvelda öldruðum og öryrkjum að bæta kjör sín. Eins og málum er háttað núna er þessum hópum í rauninni refsað fyrir það að ganga í hjúskap.

Ríkisstjórnarflokkarnir sáu að sér á lokasprettinum og hafa aðeins lagfært stöðu þessara hópa og þess vegna greiðum við þessu atkvæði okkar.