133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[12:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og komið hefur fram sameinaðist stjórnarandstaðan um það í haust að gera að forgangsverkefni að fara í umfangsmiklar umbætur á málefnum aldraðra og öryrkja innan ramma almannatryggingakerfisins og skila þeim umtalsverðum kjara- og réttarbótum strax um áramótin. Málatilbúnaður okkar ásamt mikilli og megnri óánægju þessara hópa í samfélaginu á undanförnum missirum átti án efa hlut í að ríkisstjórnin ákvað í meðförum mála í þinginu að gera nokkrar úrbætur umfram það sem áður hafði verið áformað og flýta gildistöku vissra þátta sem áttu að koma til framkvæmda síðar og allt aftur til ársins 2010.

Afgreiðsla þessa máls er ekki einangrað fyrirbæri. Hún tengist mikilli óánægju áðurnefndra hópa með það hvernig hlutur þeirra hefur verið fyrir borð borinn á undanförnum árum í svokölluðu góðæri. Ekki er um það deilt að aldraðir og öryrkjar eru langt frá því að hafa fengið sambærilegar lífskjarabætur og ýmsir aðrir hópar í samfélaginu á mörgum undangengnum árum.

Hér stærir ríkisstjórnin sig af afreksverkum en hefur haft til þess ærinn tíma að búa betur að þessum hópum. Hver er aðalrósin í hnappagatið að mati hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar, helsta talsmanns ríkisstjórnarinnar sem hér er orðinn, í atkvæðaskýringum? Jú, það er framreikningur á örlæti ríkisstjórnarinnar til ársins 2010. (Gripið fram í.) Hafðu nú hljóð augnablik, ungi maður — 29 milljarðar kr. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) eiga að koma umfram það sem hin skertu framlög undangenginna ára hefðu gefið til ársins 2010. Það má velta fyrir sér af hverju ríkisstjórnin fer ekki til 2015. Af hverju fer ekki hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson til 2015? (GÓJ: Samkomulagið var til 2010.) Þá fengi hann miklu hærri tölu. Það er frekar ódýrt, að ætla að slá sér upp á annarra kostnað. Í reynd er það ríkisstjórn og meiri hluti á Alþingi á komandi kjörtímabili sem kemur til með að þurfa að efna þennan samning, afla til þess tekna að standa undir útgjöldunum o.s.frv.

Hið góða er að samtök aldraðra og öryrkja, almenningur í landinu og kjósendur allir sjá alveg í gegnum þetta. Þeir vita alveg um hvað þetta snýst. Það hefur sjaldan reynst ríkisstjórnum, sem komnar eru að fótum fram, til góðs að lofa góðverkum á (Forseti hringir.) næsta kjörtímabili, hlutum sem þeir hafa ekki gert (Gripið fram í.) á meðan þeir höfðu völdin til þess.