133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[12:03]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við lokaafgreiðslu þessa máls liggur væntanlega skýrt fyrir fólki sem hefur fylgst með störfum Alþingis hvernig störfin hafa gengið fyrir sig á þessu hausti. Í upphafi þings lagði stjórnarandstaðan fram sameiginlega tillögu að því er varðaði lífeyrismál aldraðra og öryrkja og um bættan hag þeirra til framtíðar.

Stjórnarandstaðan kynnti þá stefnumótun við upphaf þings og mælti fyrir því í umræðunni í hv. þingi. Við afgreiðslu fjárlaga var málið flutt og óskað eftir fjárveitingum til að standa við þær tillögur sem stjórnarandstaðan lagði fram. Í öllu því ferli hafa umræðurnar skýrt málstað stjórnarandstöðunnar en eins og venjulega voru tillögur stjórnarandstöðunnar felldar af stjórnarmeirihlutanum. Það er vinnuregla hér á Alþingi og hefur verið síðustu fjögur ár. Á síðasta þingi felldu ríkisstjórnarflokkarnir 42 tillögur stjórnarandstöðunnar. Núna voru eingöngu fluttar tillögur að því er varðaði afkomu eldri borgara og öryrkja. Og ríkisstjórnin felldi þær allar. (Gripið fram í.) Þetta er afgreiðslumátinn á þingi.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að íslenska þjóðin hafi fylgst með málsmeðferðinni á haustdögum og fram að lokastörfum okkar fyrir jól. Niðurstaðan er sú að einhverjir áfangar hafa náðst og birtast í frumvarpinu sem hér er fjallað um. Þeir eru til bóta og menn eiga auðvitað að taka því eins og það er. En það er engan veginn það sem stjórnarandstaðan stefndi að. Við vildum ná meira fram. Þessi niðurskurður er heldur ekki þær umbætur sem eldri borgarar og öryrkjar hafa óskað eftir. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að eftir kosningarnar næsta vor fái núverandi stjórnarandstaða tækifæri til að fylgja eftir stefnumótun sinni í þessum málum.