133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[12:59]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekki að ASÍ hefði ekki áhuga á að auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Þetta er mismunandi heimssýn, herra forseti, hvort menn vilja stunda jafnaðarstefnu sem byggist á því að skipta kökunni eða hvort hún byggist á því að efla einstaklinginn svo að kakan stækki. Þetta er mismunandi heimssýn og ég hef þá trú að það sé betra að stækka kökuna en að vera upptekinn af því að skipta henni. Það er mín skoðun.

En það vill svo til að hjá ASÍ sem er svokölluð fjöldahreyfing er önnur skoðun. Það er það sem ég er að gagnrýna, að þeir skuli hafa svo mikil áhrif, þeir sem ekki hafa verið kosnir almennri kosningu.

Svo varðandi lýðræðið í verkalýðshreyfingunni. Ég hef margoft gagnrýnt það. Það er mjög þunglamalegt og menn geta bara fylgst með því hversu oft þeir skipta um stjórnir í verkalýðshreyfingunni. Það er afskaplega sjaldan. Það er miklu meiri hreyfing á fólki á Alþingi en í verkalýðshreyfingunni.

Síðan um vaxtabæturnar. Ég átti fund með starfsmanni ASÍ um vaxtabæturnar. Ég var að ræða við starfsmann ASÍ um hvernig við ættum að hanna þjóðfélagið, frú forseti. Ég sem alþingismaður, hluti af löggjafarsamkundunni, var að ræða við og reyna að fá samþykki starfsmanns ASÍ við hugmyndum. Hann kvartaði stöðugt undan skorti á upplýsingum. Hann vildi fá þær bara allar eins og þær lögðu sig. Liggur við. Og kvartaði stöðugt undan skorti á upplýsingum sem rakst á Persónuvernd og annað slíkt og kom ekki með neinar hugmyndir. Hann gagnrýndi stöðugt þær hugmyndir sem við urðum að koma með. Við urðum að koma með einhverja tölu, einhverjar eignir. Málið var það að eftir því sem ákveðin eign er hærri þeim mun ófélagslegra varð kerfið. (Forseti hringir.)