133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[13:38]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að setja þessa umræðu inn í neinn farveg. Ég spurði einfaldlega hvort þessar skattaívilnanir séu óháðar upphæð styrkjanna. Því það er svo að skilja á frumvarpinu.

Reyndar tók ég dæmi sem kalla má absúrd þegar ég nefndi upphæðir. En engu að síður er staðreyndin sú að ekkert þak er á þessum greiðslum og gætu þess vegna verið mjög háar, ef sveitarfélagi býður svo við að horfa. Sveitarfélagi sem er vel efnað, svo dæmi sé tekið.

Ég tel að í þessu felist ákveðin mismunun vegna þess að þetta er ekki almennt fyrirkomulag. Þetta nær ekki til landsmanna allra. Þetta er fyrirkomulag sem er komið á laggirnar af pólitískum hvötum og ríkisvaldið kemur síðan til móts við aðila með þessum hætti.

Ég tel að hér sé ekki verið að grípa til aðgerða á nægilega kerfisbundinn hátt, svo ég noti orðfæri hæstv. ráðherra. Ég tel að þetta hefði þurft meiri, vandaðri og dýpri umræðu.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að dæmi eru um greiðslur sem eru ekki skattskyldar, ég nefni t.d. húsaleigustyrki og ættleiðingarstyrkir eru að koma til sögunnar. En ég tel að þetta sé að sumu leyti annars eðlis og hef reynt að færa rök fyrir því.

Að ég sé að lesa meira í orð hæstv. ráðherra en efni standa til, ég hlustaði á talsmann Sjálfstæðisflokksins og formann efnahags- og viðskiptanefndar leggja út af þessum lagabreytingum. Og á hvern hátt? Hann vill umbylta samfélaginu í frjálshyggjuátt eins og ég skil það. Ég hef furðað mig á því að Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) skuli yfirleitt ljá þessu máls, alla vegana ekki efna til (Forseti hringir.) opinnar, kröftugrar umræðum málið.