133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[13:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér kom þetta mjög vel fram. Ég skil það ekki öðruvísi en svo að hæstv. ráðherra vilji að jafnræði ríki á milli félagslegra lausna annars vegar og einkalausna hins vegar í fjárhagslegu tilliti.

Hæstv. ráðherra segir: Við erum að leysa tiltekinn vanda. Það er alveg rétt. Spurningin er hverjar þær lausnir eiga að vera. Eiga það að vera prívatlausnir eða samfélagslegar? Eigum við að lengja fæðingarorlofið? Eigum við að efla leikskólana eða ætlum við að stuðla að því að fólk fari heim?

Ég er því fylgjandi að foreldrar séu sem lengst heima með börnum sínum á unga aldri. Ég er því fylgjandi. En ég vil að það sé gert með því að lengja fæðingarorlofið en ekki með einkalausnum af því tagi sem verið er að stuðla að með frumvarpinu.