133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[14:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt húsnæði er skemmtilegt dæmi til að velta upp því að ég held að það sé spurningin um að finna á þessu rökræna lausn. Ef atvinnurekandi lætur verkamanni í té húsnæði eru það skattskyld hlunnindi. Ef sveitarfélagið lætur þessum sama manni í té húsnæði er það ekki skattskylt ef hann bara býr þar. (Gripið fram í.) Ef það er litið á það sem félagslega þjónustu. Þetta eru nefnilega þau vandkvæði sem skattstjóri lendir í og ég held að skattstjóra sé eiginlega falið vald til að hanna hvað eigi að vera skattfrjálst og hvað ekki. Ég vildi gjarnan að menn færu í gegnum það á löggjafarsamkundunni og fyndu út úr því hver af hlunnindum hins opinbera eiga að vera skattfrjáls.

Ég nefni það að persónuafslátturinn er hugsaður fyrir kostnaði við að lifa og meira að segja stjórnlagadómstóll Þýskalands komst að þeirri niðurstöðu að það mætti ekki skattleggja tekjur sem einungis dygðu fyrir lágmarksframfærslu, algjörri lágmarksframfærslu sem ég held að hafi verið um 40 þús. kr. á mánuði, eitthvað slíkt, persónuafslátturinn yrði að vera það hár. Auðvitað eru allar tekjur mínar ætlaðar til að mæta kostnaði í einhverju formi nema það sem ég spara. Allar tekjur venjulegs fólks eru til að mæta kostnaði þannig að þau rök duga ekki til að segja að einhverjar ákveðnar bætur frá hinu opinbera sem fara til greiðslu kostnaðar eigi þess vegna að vera skattfrjálsar. Allar tekjur einstaklinga eru ætlaðar til að greiða kostnað í einhverju formi og ættu þar af leiðandi samkvæmt sömu rökum að vera skattfrjálsar.