133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[14:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef sveitarfélag leggur starfsmanni sínum til íbúðarhúsnæði og hann greiðir fyrir það lægri fjárhæð en almennt markaðsverð (Gripið fram í.) er mismunurinn skattskyld hlunnindi sem viðkomandi starfsmaður verður að telja fram og greiða skatta af. (Gripið fram í.) Já, já, alveg sama. Ef einhver nýtur þeirra hlunninda á hann að telja þau fram þannig að það stendur alveg fyrir sínu í þeim efnum. Ég hef gagnrýnt þessa grein út frá skattalögunum af því að ég sé fram á það að ef menn bora svona göt á kerfið enda þeir í vandræðum og ógöngum.

Það eru auðvitað líka önnur rök í þessu máli sem mæla mjög sterklega gegn þessari breytingu og það eru jafnréttissjónarmiðin. Ég held að það sé alveg augljóst mál að þessar greiðslur muni fyrst og fremst leiða til þess að konum verði ýtt inn á heimilin. Ef greiðslurnar eru nægilega háar til þess að það sé aðlaðandi að vera heima borið saman við tekjurnar af því að vinna úti ýtir þetta konunum fyrst og fremst inn á heimilin og vinnur gegn jafnréttissjónarmiðunum sem menn vilja hafa að leiðarljósi. Ég sé reyndar í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að þar er getið um þessi sjónarmið og bent á að slíkar greiðslur hafi verið í gildi í Noregi um tíma en Norðmenn íhugi að leggja þær af þar sem þær hafi nær eingöngu verið nýttar af mæðrum og stuðlað að því konur fari út af vinnumarkaðnum og vinni þar með gegn jafnrétti kynjanna. Mér sýnast þær upplýsingar sem koma þarna fram einmitt rökstyðja þann ótta sem ég hef um þessa breytingu hvað jafnréttissjónarmiðin varðar.