133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:05]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það alkunna að ákveðnar samfélagslegar aðgerðir hafa skipt sköpum með það hversu reykingar hafa minnkað á undanförnum árum og áratugum. Það hefur verið farið í markvissar samfélagslegar aðgerðir til þess að stýra neyslu almennings á tóbaki. Þær aðgerðir hafa skilað verulegum árangri.

Þær valda því að umfang ákveðinna sjúkdóma minnkar, sjúkdóma sem við höfum þurft að greiða sameiginlega fyrir úr samfélagslegum sjóðum okkar. Nákvæmlega það sama mundi gerast ef við tækjum um það sameiginlega ákvörðun að stýra neyslu almennings varðandi sykur.

Við greiðum núna óhóflega háar upphæðir í heilbrigðiskerfinu vegna þess að aðgengi fólks að sykri er mikið og líka vegna þess að fræðsla er ekki nóg.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað verðum við að taka sameiginlega ábyrgð á því að auka fræðsluna. En þá verðum við líka að styrkja þá stofnun sem við höfum falið það hlutverk og það er Lýðheilsustöð. Mér finnst álit meiri hlutans í nefndinni vera að ganga á svig við vilja þeirrar stofnunar sem við höfum falið ákveðið hlutverk í þessum efnum. Mér þykir það mjög, mjög alvarlegt.

Ég hefði því viljað sjá hér að nefndin hefði leyft sér að stíga þetta skref varðandi gosdrykkina, sem börn ákveða vissulega sjálf að kaupa, því börn eiga vasapeninga, en ef þau standa frammi fyrir því að þurfa að velja á milli sódavatns og gosdrykkja með sykri, annað er ódýrara en hitt, þá veldu þau ódýrari kostinn. Þannig að ég er algerlega sannfærð um að meiri hluti nefndarinnar er að fara hér inn á mjög hættulegt spor.