133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:33]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Málið er afskaplega skýrt. Samfylkingin vill fella niður öll vörugjöld á matvælum, öll vörugjöld á öllum matvælum. Við teljum að þessi skattur sé slæmur. Hann er kostnaðarsamur og hækkar matvælaverð, hann hækkar kostnað verslunarinnar. Við höfum ekki þá sannfæringu að þessi háu vörugjöld skili árangri við neyslustýringu, sem hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir kannski hefur.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann á móti. Fyrst hún er sannfærð um þessi svokölluðu lýðheilsusjónarmið og að þetta sé rétt leið, að halda úti sérstökum sykurskatti: Hvernig stendur á að hv. þingmaður er tilbúinn að fella niður vörugjöld á gosdrykkjum? Í tillögum ríkisstjórnarflokkanna stendur til að fella niður vörugjald á gosdrykkjum. Þarf ekki hv. þingmaður að vera samkvæmur sjálfum sér og aðrir þingmenn ríkisstjórnarinnar að ef þeir vilja skilja sætindin og sykruðu vörurnar eftir og hafa vörugjöld á þeim vörum? Hvernig stendur á að þeir eru ekki samkvæmir sjálfum sér þegar kemur að gosdrykkjum sem eru augljóslega sykraðar vörur? Í þeim er talsvert magn af sykri eins og allir vita.