133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:35]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Afstaða Samfylkingarinnar ætti ekki að koma hv. þingmanni á óvart. Hún var kynnt í haust og laut að því að fella niður vörugjöld af öllum matvælum. Þetta er ekki sérskoðun Samfylkingarinnar, að fella beri niður öll vörugjöld. Neytendasamtökin vilja fella niður öll vörugjöld. Samtök atvinnulífsins vilja fella niður öll vörugjöld og Samtök iðnaðarins einnig. Samtök verslunar og þjónustu vilja fella niður öll vörugjöld af matvælum og Félag íslenskra stórkaupmanna vill fella niður öll vörugjöld af matvælum. Þetta eru hagsmunasamtök stórra hópa og Neytendasamtökin eru málsvarar okkar neytenda. Þar er um að ræða samtök sem berjast fyrir bættum kjörum almennings og ég er ánægður með að vera í flokki með þessum aðilum. Að auki finnast mér röksemdirnar með þessari skattlagningu svo veikar í ljósi þess að þetta er dýr leið til að ná fram óljósu markmiði.

Við eigum að fara forvarnaleiðina og reyna að sporna við aukinni sætindaneyslu og gosdrykkjanotkun en förum aðra leið að því. Það er vel hægt, hv. þingmaður.