133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:37]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, sem var svona „hæst í heimi ræða“, að verðið væri hæst á Íslandi og kerfið verst. Það má auðvitað finna ágalla á því kerfi sem við styðjumst við varðandi innflutning á landbúnaðarafurðum. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé fullkomið en ég vil benda á að miðað við meðalverð á þeim vörum annars vegar og hins vegar á vörum sem fluttar eru inn og ekki eru neinar hindranir fyrir eða tollar til að torvelda mönnum innflutning þá stendur landbúnaðarkerfið ekkert verr en frjálsa kerfið.

Munur á verði hérlendis og meðalverði í Evrópusambandinu á innfluttum kornvörum er meiri en verðmunur á innlendri landbúnaðarframleiðslu miðað við meðalverð í Evrópusambandinu. Verðmunur á meðalverði á fatnaði í Evrópusambandinu og hér á landi er líka meiri en þessi munur. Frjálsa kerfið skilar því ekki lægra verði en landbúnaðarkerfið. Þannig er ekki hægt að rökstyðja fullyrðinguna um að kerfið sem við styðjumst við sé vont og hitt sé gott. Frjálsa kerfið er jafndýrt ef ekki dýrara en landbúnaðarkerfi okkar.

Ástæðan fyrir þessu, virðulegi forseti, er sú að verðlagning í frjálsu kerfi er ekki endilega miðuð við uppsafnaðan kostnað heldur kaupgetu almennings. Það sem er líka „hæst í heimi“, kannski innan gæsalappa, er kaupmáttur almennings hér á landi. Þess vegna verðleggja hinir frjálsu kaupmenn vöruna í samræmi við það.