133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:39]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að íslenskar landbúnaðarafurðir eru ekki einu vörurnar sem eru dýrar á Íslandi. Ég fór sérstaklega yfir það að fjölmargir þættir í samfélaginu eru of dýrir, einn af þeim þáttum eru landbúnaðarvörurnar. Það er líka vitað að hátt verð á landbúnaðarvörum hækkar verð á öðrum vörum. Þetta er ein af niðurstöðum matvælaverðsnefndarinnar svokallaðrar og fleiri hagfræðinga. Sé hátt verð á matvælum þá hækkar verð á öðrum svokölluðum staðkvæmum vörum. Þetta helst allt í hendur.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að við þurfum að halda úti öflugu samkeppniseftirliti samhliða þeim aðgerðum sem ég mæli fyrir. Það er ekki til ein töfralausn til að lækka verðlag á Íslandi en til eru margar lausnir og ein af þeim er að auka frjálsræði í íslenskum landbúnaði. Það er bara ein af niðurstöðum rekstrarhagfræðinnar að frjáls samkeppni er neytendum til hagsbóta. Annað eru bara bábiljur sem eiga ekki við rök að styðjast.

Síðan langar mig að lokum að benda hv. þingmanni á að nokkrar þjóðir í Evrópu eru þó ríkari en Íslendingar, með meiri kaupmátt og hærri laun, en hins vegar talsvert lægra matvælaverð.