133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:44]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það verður lengi deilt um það hvernig eigi að bæta kjör landsmanna, hvaða leiðir séu vænlegastar til þess. Ég hef tekið þátt í umræðu um það efni í langan tíma. Ég minnist umræðna um matarskattinn í byrjun tíunda áratugarins. Þá lágu hinar pólitísku línur á annan veg en þær gera nú og ekkert óeðlilegt við það að menn skipti um skoðun eða lagi sig að nýjum tímum, nýrri tækni til dæmis. Nú er að mínu mati auðveldara að vera með mismunandi skattstig en áður var einfaldlega vegna nýrrar og bættrar tækni. En á fyrri hluta tíunda áratugarins var ég, svo dæmi sé tekið, fylgjandi því að fara markvissar leiðir til að bæta stöðu barnafólks sérstaklega, hækka barnabætur, bæta stöðu þeirra sem eru að afla húsnæðis o.s.frv. Aðrir vildu þá lækka matarskattinn. Ef ég man rétt voru BSRB og Alþýðuflokkurinn sama sinnis á þeim tíma og Framsókn hygg ég, en Sjálfstæðisflokkur og Alþýðusambandið vildu fara matarskattslækkunarleiðina og þá varð það ráð að fara með innlenda matvöru niður í lægra skattþrep.

Ég er hins vegar kominn á þá skoðun að það sé rétt leið sem við erum að fara nú með því að stíga þessi skref til lækkunar á matarverði en ítreka að við þurfum einnig að horfa til annarra leiða. Þá er ég að horfa til álagningar í verslun. Samþjöppun og fákeppni í verslun hefur staðið hagstæðu matarverði hér fyrir þrifum. Við þurfum einnig að gera þetta í góðri sátt við bændastéttina og hafa í huga að markmiðið er ekki einvörðungu það að hafa verð á matvöru lágt heldur viljum við einnig stuðla að því að landsmenn neyti gæðavöru.

Hæstv. forseti. Hér hefur verið gerð grein fyrir þessu frumvarpi sem liggur fyrir þinginu. Ég ætla að staðnæmast við tvær tillögur sem ég og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði komum að, en þegar hefur verið gerð grein fyrir öðrum tillögum sem við komum sameiginlega að með stjórnarandstöðunni, Samfylkingu og Frjálslyndum. Síðan er um nokkrar breytingartillögur að ræða þar sem við eigum ekki samleið innan stjórnarandstöðunnar. Allt þetta mun koma í ljós við atkvæðagreiðslu um frumvarpið hér á eftir. En sem kunnugt er vill Samfylkingin stíga skrefið til fulls og afnema þessi gjöld að fullu og þessa skatta, eins og tillögur liggja fyrir um.

Ég vil nefna tillögu stjórnarandstöðunnar sem lýtur að almenningssamgöngum, strætisvögnum. Við viljum að kaupendur almenningsvagna sitji við sama borð og kaupendur annarra hópferðabíla og njóti endurgreiðslu tveggja þriðju hluta virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða. Fyrir þinginu liggur lagafrumvarp um þetta efni sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs undir forustu hv. varaþingmanns Álfheiðar Ingadóttur fluttu í vetur og reyndar á síðasta ári einnig. Í greinargerð með því frumvarpi kemur fram að á höfuðborgarsvæðinu þar sem Strætó bs. er starfandi hafi frá stofnun þess byggðasamlags í júlí 2001 verið fest kaup á 45 nýjum vögnum og nemi álagður virðisaukaskattur vegna þeirra kaupa 161,6 millj. kr. en tveir þriðju hlutar fjárhæðarinnar, þ.e. það sem endurgreiðslan tæki til ef þetta frumvarp hefði náð fram að ganga, hefði numið 107,3 millj. kr. Það er bent á það enn fremur í þessari greinargerð að stærsti undirverktaki Strætó bs., Hagvagnar hf., hafi frá sama tíma keypt 21 strætisvagn til aksturs á áðurgreindu þjónustusvæði og nemi álagður virðisaukaskattur vegna þeirra kaupa um það bil 64 millj. kr. og reiknuð endurgreiðsla, ef jafnræði væri með almenningssamgöngum og öðrum hópferðum, tæplega 43 millj. kr. Við gerum sem sagt tillögu um að almenningssamgöngur sitji við sama borð og aðrir kaupendur hópferðabifreiða og erum með tillögu um þetta efni.

Hitt málið sem ég vildi staðnæmast við eru ábendingar Lýðheilsustofnunar um að okkur beri ekki að grípa til aðgerða sem hafi í för með sér að gosdrykkir og sykraðir safar lækki í verði. Það hefur komið fram í bréfi sem Lýðheilsustofnun ritaði efnahags- og viðskiptanefnd þingsins réttilega að nái þær breytingar fram að ganga sem liggja hér fyrir þinginu frá stjórnarmeirihlutanum muni gosdrykkir og sykraðir safar lækka mest allra vörutegunda. Ástæðan er sú að þar er um að ræða niðurfellingu á vörugjöldum annars vegar og lækkun á virðisaukaskatti hins vegar þannig að þegar þetta tvennt kemur saman er lækkunin mest þarna.

Lýðheilsustofnun ritaði nefndinni bréf. Ég ætla nú ekki að lesa þetta bréf að öðru leyti en því að vitna í nokkrar línur þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vert er að benda á að rannsóknir sýna að verðnæmi gosdrykkja er töluverð og verðlækkun þeirra hefur mest áhrif á neyslu þeirra þjóðfélagshópa sem almennt er erfitt að ná til með heilsuhvetjandi skilaboðum. Í því samhengi má nefna að unglingar eru mjög næmir fyrir verðbreytingum. Einnig ber að geta þess að næmni þeirra sem neyta mikils magns gosdrykkja er töluverð. Verðbreyting hefur hins vegar minni áhrif á þá sem drekka sykraða gosdrykki í hófi. Hér er því um að ræða aðgerð sem mun hafa neysluhvetjandi áhrif á unglingana okkar og þá sem nú þegar neyta mikils magns gosdrykkja.“

Lýðheilsustofnun var sett á fót til þess að ráðleggja okkur sem hér erum inni um stefnumótun á sviði eins og þessum og að sjálfsögðu eigum við að hlusta þegar Lýðheilsustofnun talar. Ég harma það í rauninni hve seint þessi umræða fer af stað vegna þess að ég hygg að efasemdir séu að vakna núna hjá ýmsum sem hafa ekki hugleitt það sérstaklega að þessar breytingar eru í lögunum. Ég vona að sjálfsögðu að þær breytingartillögur sem við setjum fram nái fram að ganga. En ég legg áherslu á að sem betur fer er ekki bannað með lögum að breyta lögum og mestu máli skiptir hver endanleg niðurstaða verður. Ég sé að á mælendaskrá eru hjúkrunarfræðingar og læknar sem hafa kvatt sér hljóðs. Ég mun horfa fremur til þeirrar áherslu sem kemur fram í þeirra máli áður en kemur til endanlegrar afgreiðslu þessa máls hér í dag vegna þess að öllu máli skiptir hver endanleg niðurstaða verður. Ég vona að okkur takist að færa þetta inn í þann farveg sem Lýðheilsustofnun mælir með.