133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:00]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir áhyggjur þeirra sem hér hafa talað varðandi það að hér sé neytt of mikils af sykri, sætindum og gosi. Það er þjóðarkvilli sem þarf að lækna. Það sem er merkilegt er að Noregur og Ísland eiga það sameiginlegt að vera með hæsta verðið, en hér er líka mesta neyslan. Það segir okkur að verð á sætindum og gosi og sykri hefur bara ekkert með neysluna að gera. Hér hefur verðinu á þessu verið haldið uppi eins og öðru matarverði með vörugjöldum og háu virðisaukaskattsstigi o.s.frv. og orsakað þetta verð en samt er enginn bilbugur á neyslunni. Ég tek alveg mark á Lýðheilsustöð en ég er samt sannfærð um að það hefði verið betra að fara aðrar leiðir. Það er mjög flókið, alveg eins og kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals, að vera með vörugjöld á sumu og mismunandi vörugjald.

Ég fór í skoðun á matarverðsskýrslunni uppfull af því að vilja lækka vörugjöldin á öllu nema sykri. Þegar ég var búin að vinna mig í gegnum þá skýrslu og tala við alls konar fólk gerði ég mér grein fyrir því að það er sykur í 80% af vörunni sem er í eldhússkápunum hjá okkur og mælieiningarnar eru bara úti um allt. Í þeim felast síðan uppsöfnunaráhrif sem hækka verð og gera bæði verðlagningu og verðið ógagnsætt. Þess vegna held ég að það sé þarfara að við finnum aðrar leiðir til að vinna gegn sykurneyslu en að hamast við að viðhalda úreltu vörugjaldakerfi. Það er ástæðan fyrir því að ég styð núna afnám vörugjaldanna.