133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:02]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst í rauninni mjög athyglisvert að heyra að Samfylkingin vill fella niður það sem hefur stundum verið kallað sykurskattur og lækka verð á sykri og sætindum. Ýmsir þingmenn, sérstaklega Samfylkingarinnar, hafa lagt fram tillögur trekk í trekk til að vinna gegn offitu, barna og ungmenna sérstaklega, þannig að þetta er sú aðgerð sem reynist einna best í því að halda sykri og sætindum frá börnum, verðlagningin. Það virkar sérstaklega á krakka sem standa frammi fyrir því að velja á milli eplis og sælgætis til þess að svala hungri, og sælgætið verður ofan á ef það er ódýrara. Mér finnst mjög sérkennilegt þegar Samfylkingin sem hefur fram til þessa talið sig vera flokk sem fylgir manneldismarkmiðum tekur þessa afstöðu í málinu.

Það kom fram í ræðu minni að verð á gosdrykkjum og annarri vöru er hærra hér á landi og í Noregi en annars staðar en það sem skiptir máli er hlutfallslegt verð á milli hollustuvöru og sykraðrar vöru. Það er aðalatriðið. Áður en við fullyrðum það sem kemur fram í máli hv. þingmanns þurfum við að skoða hlutfallið á milli hollustuvöru og sætinda í Evrópu. Mér segir svo hugur að hollustuvara, ávextir, grænmeti og slíkt, sé hlutfallslega ódýrari en sykur og sætindi í Evrópu. Það er það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi.