133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:06]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom með bestu rökin í þessu máli, þau að þegar verðið lækkaði á grænmeti og ávöxtum jókst neyslan. Það er nákvæmlega það sem verið er að segja. Með því að lækka verð á sykri og sætindum eykst neyslan. Stjórntæki stjórnvalda til að hafa áhrif á þætti (Gripið fram í.) til bóta eru m.a. fræðsla og verðstýring. Það er ekki nóg að hafa einn þáttinn, það verða að vera fleiri þættir til að ná árangri.

Hv. þingmaður spyr: Er það gott eins og það er? Ja, vörugjöldum á sykri og sætindum verður haldið eftir en hv. þingmaður vill fella niður vörugjöld á sykri og sætindum. (Gripið fram í.) Með því að fara þá leið sem hv. þingmaður vill fara er verðið lækkað og neysla aukin á sykri og sætindum. (Gripið fram í.) Það eru aðrar leiðir sem þarf að fara en þær duga ekki einar og sér.