133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:12]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Forseti. Við ræðum hér um breytingar á lögum um vörugjald, lögum um virðisaukaskatt og lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Í stuttu máli er hér um að ræða tillögur ríkisstjórnarinnar frá því í sumar um hvernig eigi að lækka matarreikning heimilanna í landinu og er málið afrakstur vinnu sem þáverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson setti af stað með skipan nefndar um lækkun matarverðs. Eins og við þekkjum hér og er orðið frægt náðist ekki samstaða í nefndinni um niðurstöður en hagstofustjóri, formaður nefndarinnar, skilaði áliti sínu í sumar. Ríkisstjórnin tók þá við því og útfærði tillögur sínar sem kynntar voru í haust, þann 9. október sl. Umræðan hér sem og 1. umr. um þetta frumvarp gengur mikið út á að koma örugglega til skila hver sé hugmyndafræðingur eða höfundur tillagnanna en mér finnst sú umræða dæma sig sjálf. Auðvitað hafa allir stjórnmálaflokkar tekist á við hugmyndir um lækkun matarreiknings heimilanna, hver með sínum hætti. Höfum við framsóknarmenn einmitt lengi rætt í okkar röðum um með hvaða hætti hægt sé að koma til móts við þetta brýna mál sem er lækkun matarreiknings heimilanna. Ég tel að það sé einmitt mikilvæg aðgerð fyrir heimilin í landinu, ekki síst tekjulágar og millitekjufjölskyldur og einstaklinga svo að ég tali nú ekki um barnmargar fjölskyldur.

Fyrir síðustu kosningar lögðum við framsóknarmenn þó ekki sérstaklega upp með lækkanir á virðisaukaskatti í kosningastefnuskrá okkar. Ástæðan var einfaldlega sú að við lögðum áherslu á lækkun tekjuskattsins, hækkun persónuafsláttarins og hækkun barnabótanna. Við vildum ekki ganga svo langt í loforðum um skattalækkanir að það kæmi niður á velferðarkerfinu og möguleikum okkar í fjárfestingum í því. Aftur á móti hefur hin góða staða ríkissjóðs og hin styrka efnahagsstjórn gert okkur kleift að greiða svo mikið niður skuldir ríkisins að nú er hægt að nota frekar fjármagn í samneysluna eða velferðarkerfið en í vaxtagreiðslur af skuldum ríkisins. Þessi staða hefur einmitt auðveldað okkur að stíga þau mikilvægu skref sem við erum að ræða um hér í dag með lækkun matarverðs.

Í stuttu máli ganga tillögurnar út á að vörugjöld af innlendum og innfluttum matvælum öðrum en sykri og sætindum verði felld niður að fullu 1. mars 2007. Tímasetningin er auðvitað valin í efnahagslegu tilliti þó að menn ýi að öðru í umræðunni.

Í dag höfum við rætt nokkuð vel um þau sjónarmið sem takast hér á, annars vegar um einföldun og gagnsæi skattkerfisins og hins vegar um lýðheilsusjónarmiðin. Ég vil segja að sú leið sem við setjum hér fram fer auðvitað bil beggja, þetta er viss málamiðlun þessara sjónarmiða, en það er alveg greinilegt á umræðunni hér í dag að það er alls ekki samstaða meðal hv. stjórnarandstöðu heldur kemur glögglega í ljós sú afstaða Samfylkingarinnar að leggja hreinlega af öll vörugjöld, þar með af sykri og sætindum, meðan vinstri grænir hafa haldið öðru til haga. Ég tel að ríkisstjórnarflokkarnir séu hér að fara, jú, vissa millileið en það er mikilvægt að halda henni til haga og þó að í umræðunni í dag hafi komið fram sú staðreynd að háir sykurskattar og háir skattar á áfengi hafi ekki komið í veg fyrir að hér sé neysla á sykri ein sú mesta í heiminum og hér hafi verið hraður vöxtur á neyslu áfengis finnst mér samt felast í þessu viss skilaboð, skilaboð um að ríkið vilji gjarnan leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn offitu og heilsufarslegum vandamálum sem tengjast henni.

Ég furða mig svolítið á afstöðu Samfylkingarinnar í málinu vegna þess að mér hefur þótt vera ansi áberandi á þessu kjörtímabili að einhverju leyti málflutningur hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur þar sem hún hefur barist fyrir þessum sjónarmiðum. Það er greinilegt að hún hefur orðið undir með málflutning sinn í þingflokki sínum og það er annað hljóð sem heyrist nú og kom fram í ræðu talsmanns Samfylkingarinnar í þessu máli, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar.

Í öðru lagi ganga breytingarnar í þessu frumvarpi út á að virðisaukaskattur á matvælum verði lækkaður úr 14% í 7% frá sama tíma og verði þá öll vara til manneldis í lægra þrepinu. Þá verður virðisaukaskattur á annarri þjónustu og vörum lækkaður í 7% og þetta á við um bækur, tímarit, blöð, húshitun, hótelgistingu og geisladiska. Þar með erum við að mæta sjónarmiði um samkeppnisstöðu tónlistarinnar við bókina og ég held að það sé mikilvægt að þær breytingar hafi orðið hér á frumvarpinu í meðferð þingsins.

Það er auðvitað heilmargt hægt að segja um þetta mikilvæga mál. Í þessu eru t.d. falin mikil tækifæri að ég tel fyrir ferðaþjónustuna og veitingaþjónustuna í landinu. Þá mun lækkun virðisaukaskatts á húshitun líka koma fólki til góða á svæðum þar sem hitað er með rafmagni og er það oft í okkar afskekktustu byggðum úti á landi.

Það sem skiptir kannski mestu máli er að fyrir almenning í landinu geta þessar aðgerðir þýtt tæplega 16% lækkun matvælaverðs og 2,3% lækkun neysluverðsvísitölu á næsta ári. Auk þess mun ákvörðun um að lækka virðisaukaskatt á öðrum vörum og þjónustu úr 14% í 7% leiða til um 0,4% lækkunar í viðbót þannig að heildaráhrif þessara aðgerða eru metin til 2,7% lækkunar neysluverðsvísitölu á næsta ári. Kaupmáttur heimilanna í landinu eykst þá að sama skapi um 2,7% og það er afar mikilvægt.

Í þessu samhengi má ekki gleyma því framlagi sem bændur og afurðastöðvar leggja til þessara aðgerða. Almennir tollar á innfluttum kjötvörum verða lækkaðir um allt að 40%. Er sú vinna til í Stjórnarráðinu og verður farið í gegnum hana á næsta ári. Samhliða þessu verður áfram unnið að frekari gagnkvæmum tollalækkunum og bættum markaðsaðgangi gagnvart helstu viðskiptalöndum Íslands í milliríkjasamningum sem tryggja jafnframt úuflutningshagsmuni íslensks atvinnulífs. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa svo ákveðið að raunlækkun í heildsöluverði mjólkurvara á næstu 12 mánuðum verði náð með óbreyttu verði á þessum tíma, hinu sama og ákveðið var af verðlagsnefnd búvöru þann 1. janúar 2006. Hér er auðvitað um að ræða heilmiklar breytingar fyrir landbúnaðinn. Þetta er unnið í samvinnu við hann og það er mikilvægt að halda því til haga.

Frú forseti. Árið 2007 verður ríkið af tekjum sem nema 8,7 milljörðum þegar þessar tillögur verða að lögum. Á heilsársgrundvelli þýðir þetta 10,5 milljarða. Það verður að halda því til haga að þetta eru auðvitað tekjur sem ríkið hefur haft og þær hafa staðið að hluta undir samneyslu okkar eða undir þeim brýnu velferðarmálum sem við höfum viljað standa í og höfum blessunarlega fjárfest í. Það er vegna þessarar góðu stöðu ríkisfjármálanna sem við höfum treyst okkur til að ganga lengra í þessum skattalækkunum með því að lækka núna matarreikning landsmanna en það er þá brýnt að eigi ríkið að verða af þessum tekjum verði tryggt að þær rati örugglega í hendur skattborgaranna sjálfra en týnist ekki einhvers staðar á leiðinni frá haga ofan í maga. Stjórnvöld verða í samvinnu við verðlagseftirlit ASÍ, Neytendastofu, Neytendasamtökin og fleiri aðila að tryggja að svo verði. Hæstv. viðskiptaráðherra hefur þegar gripið til aðgerða sem tengjast þessu.

Við ræddum hér áðan um lækkun tekjuskattsins, hækkun persónuafsláttarins og hækkun skattleysismarkanna. Samantekið munu þau tvö frumvörp sem við höfum verið að ræða þýða að um áramótin lækka skattar almennings í landinu um 22 milljarða. Hér eru stigin gríðarlega stór og mikilvæg skref sem er brýnt að halda til haga í þessari umræðu. Ég trúi því, virðulegur forseti, að við séum að stíga hér mjög mikilvæg skref í átt til þess að bæta almenn lífskjör í landinu og ég vona að okkur takist að afgreiða þetta brýna mál fyrir jól.