133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:20]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um vörugjald og virðisaukaskatt á matvælum. Hv. þm. Ögmundur Jónsson, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd, gerði fyrr í dag grein fyrir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til málsins og fór nokkuð yfir frumvarpið á þeim stutta tíma sem við ætlum að gefa okkur í dag.

Það er aðeins eitt atriði sem ég vil taka upp og það er vegna þess ákvæðis að fella niður vörugjald og virðisaukaskatt af gosdrykkjum. Ég tel að þarna hafi orðið það sem ég kalla tæknileg villa, ef má orða það svo. Ég tel að í hugum okkar flestra fari saman sælgæti og gos ef við hugsum þetta mál um niðurfellingu á vörugjöldum og virðisaukaskatti á matvælum til að auka möguleika fólks á að borða hollan og góðan mat og auka tekjur fjölskyldnanna, og það hafi verið vanhugsað að taka ekki gosdrykkina með sælgæti og sykri.

Ég lít svo á að við eigum að horfa á lýðheilsusjónarmið og hafa manneldismarkmið að leiðarljósi, enda hefur Lýðheilsustöð, sem er sú stofnun sem á að leiðbeina Alþingi og stjórnvöldum í slíkum málum, bent á hversu mikilvægt það er að lækka ekki vöruverð á gosi og það er aðallega af tveimur ástæðum. Það er vegna þeirra miklu og auknu tannskemmda sem vart hefur orðið við hjá börnum og unglingum og ungu fólki vegna glerungseyðingar af völdum gosdrykkjaþambs og eins vegna aukinnar offitu og ofþyngdar hjá börnum og ungu fólki. Þegar þetta tvennt er haft í huga og hve stór þáttur gosdrykkja er í báðum þessum tilvikum tel ég að við eigum að horfa á niðurfellingu á vörugjaldi og virðisaukaskatti af matvælum með það í huga að undanskilja gosdrykkina.

Ég fagna því sannarlega, hæstv. forseti, að við skulum vera að stíga það skref að lækka virðisaukaskatt af matvælum. Það er ein leiðin af mörgum til að ná niður vöruverði og ein leið af mörgum sem eru í heilbrigðisáætlun okkar sem nær til 2010 en þar er getið Evrópumarkmiða sem setja okkur það að fyrir árið 2020 eigi allir þjóðfélagsgeirar, þ.e. löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið, og þar með heildsalar og smásalar einnig, að hafa gert sér grein fyrir ábyrgð sinni í heilsufarslegum efnum og viðurkennt hana. Ég tel að það mikilvæga skref sem hér er verið að stíga sé hluti af þeirri leið að lækka vöruverðið því að þar munu heildsalar og smásalar líka verða ábyrgir svo lækkunin skili sér til neytenda.

Ég tel ekkert athugavert við að hafa jákvæða neyslustýringu með lýðheilsumarkmið í huga. Ef ekki vinnst svigrúm til að breyta því ákvæði að hafa gosdrykki og sæta drykki með í lækkun á vörugjaldi og virðisaukaskatti þá er hér breytingartillaga frá Ögmundi Jónassyni sem ég tel að þingheimur geti afgreitt með jákvæðum hætti. En ef menn eru ekki tilbúnir eða telja sig ekki hafa skoðað þetta nægilega vandlega í dag, eins og mér heyrist hafa komið fram hjá nokkrum þingmönnum, þá getum við notað tímann í þinghléinu og þar til þing kemur aftur saman í janúarmánuði og farið betur yfir þetta og skoðað m.a. þá niðurfellingu á virðisaukaskatti á lyfjum. Ég tel að næsta skref sem við eigum að taka sé að fara þessa sömu leið með lyfseðilsskyld lyf, ekki öll lyf heldur lyfseðilsskyld lyf.

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins koma þessum sjónarmiðum að varðandi gosdrykkina og tel að við eigum að hafa lýðheilsu- og manneldismarkmið að leiðarljósi.