133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

tollalög.

419. mál
[17:23]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum, sem er að finna á þskj. 639.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lilju Sturludóttur frá fjármálaráðuneyti.

Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru að lengja það tímabil úr einum mánuði í 12 sem nota má ökutæki á erlendum eða sérstökum skráningarnúmerum hér á landi án þess að greiða aðflutningsgjöld. Er um að ræða frestun á greiðslu aðflutningsgjalda til innflytjanda eða kaupanda bifreiðar sem hefur, eða hefur haft, fasta búsetu erlendis og hyggst dveljast hér á landi tímabundið og nota bifreiðina í eigin þágu. Það er gert að skilyrði að bifreiðin sé flutt til landsins eða keypt ný og óskráð hér á landi innan mánaðar frá því að viðkomandi kom til landsins fyrst. Rétt er að ítreka að þessi heimild gildir einungis um þá sem koma hingað til tímabundinnar dvalar en reglurnar eiga ekki við um þá sem hingað koma til varanlegrar búsetu.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru til komnar vegna ábendinga Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Hefur ESA bent á að óheimilt sé að binda tímabundinn innflutning á fyrirtækjabifreiðum því skilyrði að hluti aðflutningsgjalda sé greiddur eins og gert er í gildandi lögum.

Ég ætla ekki að lesa, herra forseti, þetta nefndarálit frekar en hér eru nefnd dæmi um að aðflutningsgjöldin geti numið 1,6 millj. kr. af bifreið sem er í hærri vörugjaldsflokki.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Þórarinn E. Sveinsson, Þórdís Sigurðardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Möller, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson.