133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

408. mál
[17:25]
Hlusta

Frsm. allshn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar á þskj. 640 um frumvarp til laga um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Veturliða Þór Stefánsson frá utanríkisráðuneyti, Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Sigurð Val Ásbjörnsson, bæjarstjóra Sandgerðisbæjar, Oddnýju Harðardóttur, bæjarstjóra í Garði, Magnús Gunnarsson, formann stjórnar Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., og Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins. Sameiginlegt erindi um málið barst frá bæjarstjórum Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og Garðs og auk þess sérstaklega tilkynning frá Sandgerðisbæ.

Frumvarp þetta, sem er á þskj. 458, er lagt fram til að taka af öll tvímæli um réttarstöðu á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjamanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda.

Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjalla frekar um efni frumvarpsins, enda hefur það verið gert við 1. umr. um málið. Að því er varðar skipulagsmál á svæðinu er í fyrsta lagi rétt að benda á 61. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, eins og gert er í áliti allsherjarnefndar en þar kemur fram að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn þessara mála og það er í samræmi við 2. mgr. 1. gr frumvarpsins. Nefndin telur rétt að í þessum efnum verði litið til nýskipaðrar byggingar- og skipulagsnefndar sveitarfélaganna þriggja á svæðinu, þ.e. Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og Garðs. Á þetta var lögð sérstök áhersla af hálfu umræddra sveitarfélaga.

Allsherjarnefnd leggur til nokkrar smávægilegar breytingar á frumvarpinu sem er að finna á þskj. 641. Auk mín standa að áliti allsherjarnefndar hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, Kjartan Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi en stendur ekki að álitinu. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson og Þórdís Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.