133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[17:54]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við í stjórnarandstöðunni teljum að fyrst það hafi verið svigrúm fyrir 1% lækkun á tekjuskattsprósentunni ætti frekar að verja þeim fjármunum í að hækka skattleysismörkin og tillaga okkar í dag lýtur að því. Með þessari tillögu mundu 5 þús. færri einstaklingar greiða skatt en samkvæmt tillögu ríkisstjórnarflokkanna. Sömuleiðis mun fólk með 300 þús. kr. eða minna á mánuði greiða minna í skatt en það gerir samkvæmt leið ríkisstjórnarinnar. Í því sambandi vil ég rifja upp að meðaltekjur í landinu eru um 275 þús. kr. á mánuði þannig að tillögur stjórnarandstöðunnar í dag eru hagstæðari fyrir meiri hluta þjóðarinnar og hið venjulega fólk í landinu en sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið í skattamálum.