133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:01]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp sem lýtur að því að lækka matvælaverð o.fl. sem er fagnaðarefni í sjálfu sér. Ég vil minna á frumkvæði Samfylkingarinnar í þessu máli, ekki síst frumkvæði og baráttu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem ítrekað hefur tekið þetta mál upp. Við sáum að eftir metnaðarfullan tillöguflutning Samfylkingarinnar í haust tók ríkisstjórnin loksins við sér, eftir að hafa ítrekað fellt tillögur Samfylkingarinnar um að helminga matarskattinn.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar var sett fram í flýti og var illa undirbúið. Þar var t.d. ekki tekið á tollamálum. Hæstv. fjármálaráðherra bað sjálfur um að fresta stórum hluta frumvarpsins, sem laut að áfengisverði, og allir hagsmunaaðilar bentu í meðförum þessa máls á að það skorti útreikninga og gögn til að geta metið áhrif þess.

Rúsínan í pylsuendanum var sú að lagfæra þurfti frumvarpið í skjóli nætur með því að bæta inn nokkrum vöruflokkum sem gleymdust í upptalningu á þeim vörum sem fella á niður vörugjöld af. Það birtist í nefndaráliti meiri hlutans rétt fyrir fund. Hér er augljóslega á ferð örvæntingarfullt útspil ríkisstjórnarflokkanna sem hafa haft næg tækifæri til að lækka matvælaverð á landinu.

Samfylkingin fagnar þeim skrefum sem hér eru tekin. Við munum styðja tillögu ríkisstjórnarinnar. Hins vegar eru tillögur okkar mun metnaðarfyllri í að lækka matvælaverðið. Við ætlum að lækka matvælaverðið helmingi meira en ríkisstjórnarflokkarnir vilja gera. Við munum sömuleiðis leggja fram nokkrar breytingartillögur.

Fyrsta breytingartillagan lýtur að því að fella niður öll vörugjöld af öllum matvælum. Þetta er í samræmi við kröfur helstu hagsmunaaðila svo sem Neytendasamtakanna, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu o.s.frv.

Við munum einnig leggja fram breytingartillögu um að lækka virðisaukaskatt á lyfjum. Eins og staðan verður eftir þennan dag verða lyf í efsta þrepi virðisaukaskattsins með um 24,5% skatt. Við leggjum til að sú skattlagning fari niður í 7%.

Í þriðja lagi leggjum við fram breytingartillögu sem lýtur að því að bæta verðlagseftirlit þar sem mikilvægt er að þær lækkanir sem hér munu lögfestar skili sér til neytenda og almennings.

Að okkar mati gengur ríkisstjórnin of skammt. Samfylkingin hefur það hlutverk að berjast áfram fyrir lækkuðu matarverði og flokkurinn mun gera það. Samfylkingin mun ekki sætta sig við að Íslendingar þurfi að greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Barátta Samfylkingarinnar fyrir lægra matvælaverði heldur áfram.