133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:04]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur með risaskrefum afnumið skatta á síðasta kjörtímabili. Ég ætla að rifja þau upp eftir minni, t.d. afnám eignarskatta, lækkun tekjuskatta, lækkun skatta á hagnað fyrirtækja, erfðafjárskattinn o.s.frv. Hér er enn lögð til skattalækkun. Þó vorum við rétt áðan að afgreiða annað mál sem hljóðaði upp á að eftir áramót verði 12 milljarða kr. skattalækkun. Hér er gert ráð fyrir 8–9 milljörðum kr. í viðbót. Þetta eru óskaplegar skattalækkanir sem ég þakka hæstv. ríkisstjórn fyrir og styð hana eindregið í. (Gripið fram í: Ekki alveg.)

Ég hafði efasemdir um sykurskattinn. Nú liggja fyrir ágætar tillögur frá Samfylkingunni um að afnema hann. Því miður erum við búin að afgreiða fjárlög. Á það var bent í umræðunni í gær að fjárlögin mundu varla þola stóraukin útgjöld til aldraðra og öryrkja. Ég tel að fjárlögin séu þanin til hins ýtrasta og get því ekki fallist á tillögu Samfylkingarinnar um 800 millj. kr. lækkun á sykurskatti (Gripið fram í.) né 600 millj. kr. lækkun á lyfjaverði. (Gripið fram í.) En mér finnast tillögurnar ekki vitlausar. Þær eru ágætar en þær koma of seint. Svo er náttúrlega spurning um hvort risaskref ríkisstjórnarinnar þola svona viðbót.

Varðandi umræðuna um neyslustýringuna, af því að við ræddum um sykurskattinn, vil ég benda á að ein drykkjarvara ber engan skatt og kostar ekki neitt, þ.e. blávatn. Samt er eftirspurnin ekki nægilega mikil.