133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill stuðla að því að verðlag á matvöru lækki en við viljum horfa á málin í stærra samhengi. Við viljum horfa til gæða og heilnæmis. Ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga munu gosdrykkir og sykraðir drykkir lækka meira í verði en nokkur önnur vörutegund í landinu. Við höfum fengið varnaðarorð frá Lýðheilsustöð sem beinir því til Alþingis að falla frá þessum áformum. Efnahags- og viðskiptanefnd fékk bréf þess efnis inn á fundi sína.

Þessi tillaga lýtur að því að falla frá áformum um að lækka vörugjald á gosdrykki og sykraða drykki. Við viljum hlusta á varnaðarorðin (Forseti hringir.) frá Lýðheilsustöð.