133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:12]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér eru greidd atkvæði um breytingartillögu Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins sem lýtur að því að lækka lyfjaverð í landinu. Hún snýst um að lækka virðisaukaskatt á lyfjum sem núna eru í 24,5% skattþrepi en með þessari breytingartillögu mundi skattlagningin lækka niður í 7% eins og við erum að gera varðandi matvæli, bækur, geisladiska o.s.frv. Við teljum eðlilegt að taka þetta skref núna.

Á það hefur verið bent að ríkið sjálft greiðir langstærstan hluta virðisaukaskattsins þannig að hér er ekki um að ræða mjög dýra aðgerð í ljósi þess sem bæði almenningur og ríkið uppskera. Víða í löndunum kringum okkur eru lyf án virðisaukaskatts. Má þar nefna Svíþjóð, Bretland, Kanada, Írland o.s.frv. Hér er um að ræða réttmætt skref til að lækka lyfjaverð í landinu sem er of hátt og lækka lyfjakostnað ríkisins.