133. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Á þskj. 694 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni og Lúðvíki Bergvinssyni að flytja breytingartillögu við það frumvarp sem hér er á dagskrá, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi tillaga er flutt í tengslum við það að við vorum að samþykkja hér við 2. umr. um þetta mál breytingartillögu sem felur í sér að heimgreiðslur til foreldra sem ekki nýta sér leikskólavist fyrir börn sín eða þjónustu dagmæðra sem eru sennilega um 30 þús. kr. á mánuði eru undanþegnar skattskyldu.

Það kom fram í umræðum í nefndinni um þetta mál, m.a. frá ríkisskattstjóra og í umsögn hans, að ýmsar aðrar greiðslur gætu núna fallið undir það sama ef það ætti að fara að opna fyrir undanþágu á skatti á slíkum styrkjum og greiðslum. Meðal annars var nefnt, og það er auðvitað það nærtækasta, að undanþegnar skatti eru einnig greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Einnig nefndi ríkisskattstjóri greiðslur í almannatryggingakerfinu í því sambandi og voru þar sérstaklega nefndar umönnunargreiðslur sem eru greiddar vegna elli- og örorkulífeyrisþega þar sem ríkisskattstjóri telur að hér sé um eðlislíkar greiðslur að ræða.

Út á það gengur breytingartillagan, fyrst búið er að opna fyrir þetta í skattkerfinu, að leggja til hér við 3. umr. að greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna fái hliðstæða skattalega meðferð og styrkgreiðslur eða heimgreiðslur sem við höfum rætt um hér. Þetta eru eðlislíkar greiðslur og ekkert réttlætir að þessar greiðslur fái aðra meðferð í skattkerfinu en heimgreiðslurnar. Við erum að tala um jafnræði og ég tel að það sé hreinlega brot á jafnræðisreglunni ef þessar greiðslur eru ekki undanþegnar skatti með líkum hætti.

Ég trúi því varla að framsóknarmenn ætli virkilega að greiða atkvæði gegn þessari tillögu. Ég trúi því á sjálfstæðismenn en ég trúi því ekki á framsóknarmenn í þessum sal að þeir ætli að greiða atkvæði gegn þessu sjálfsagða réttlætismáli sem er tillaga sem tryggir að jafnræði sé milli eðlislíkra greiðslna í skattkerfinu.