133. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:55]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Stjórnmál snúast um fólk og verkefni okkar stjórnmálamanna er auðvitað að stuðla að bættum hag og kjörum fjölskyldnanna og heimilanna í landinu. Það er auðvitað hin góða staða ríkissjóðs og sterk efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar sem gerir okkur kleift að stíga þessi skref í dag. Okkur hefur tekist svo að greiða niður skuldir ríkisins að nú erum við að nota fjármagnið í samneysluna og velferðarkerfið í stað þess að vera að borga niður vexti af skuldum. Þess vegna getum við stigið þessi skref í dag sem er að lækka enn frekar matarverð í landinu og lækka skattana. Ég verð að segja að ræða hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur koma mér hreinlega á óvart vegna þess að ef við förum yfir verkefni þessarar ríkisstjórnar frá 1998 þá hefur okkur tekist að auka framlög til heilbrigðismála að raungildi um 50%. (Gripið fram í.) Jú, við höfum lagt á það áherslu og við höfuð aukið framlög til félagsmála og almannatrygginga um 45%, til menntamála um 60% og háskólastigsins eins og sér um 80%. Í því liggur einmitt styrkur þessarar ríkisstjórnar að hún hefur lagt áherslu á velferðarmálin og að þessu leyti má segja að þetta hafi verið velferðarstjórn. Ég veit að hv. þingmaður getur tekið undir með mér að þetta séu brýn verkefni og við eigum að halda áfram á þessari braut.

Yfirboðin sem koma fram í ræðum tveggja síðustu hv. þingmanna eru líka ótrúleg. Annars vegar er verið að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að stíga þessi skref en hins vegar að greiða atkvæði breytingartillögum sem ganga út á að ganga lengra. Ég veit ekki betur en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi staðið að breytingartillögum við almannatryggingafrumvarpið upp á 7 milljarða til viðbótar því sem verið er að gera hér. Staðreyndin er sú að þau frumvörp sem við erum að greiða atkvæði um í dag ganga út á að lækka skatta til almennings og heimila í landinu um 22 milljarða og það ríður á að við klárum þessi mál fyrir jólin. Við erum að vinna fyrir þetta fólk og við stöndum að þessu fyrir fjölskyldurnar og heimilin í landinu.