133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:36]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það kann að þykja undarlegt að kveðja sér hér hljóðs um störf þingsins sem engin hafa verið undanfarinn mánuð. Það er þó svo að menntamálanefnd hefur starfað af miklum þrótti í þinghléinu. Að lokum þeirra starfa eftir áramót varð sá atburður að Fréttablaðið, dagblað hér í bæ, skýrði frá því að starfsmenn þeirra menntamálaráðherra og fjármálaráðherra hefðu staðið í bréfaskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA í heilt ár. Það kom í ljós að þau stóðu yfir frá 30. janúar 2006 til 9. janúar 2007 því að samskiptin héldu áfram eftir að Fréttablaðið hafði upplýst um þau. Þetta gerðist án þess að menntamálanefnd og Alþingi væri hleypt í þessi gögn eða menntamálanefndarmenn látnir vita um þau samskipti sem þarna hefðu farið fram.

Síðan gerðist það að beðið var um gögnin, það gerðist síðdegis þennan sama föstudag. Formaður menntamálanefndar má eiga það að hann brást hart við. Gögnin komust þó ekki í hendur menntamálanefndarmanna fyrr en á miðvikudagskvöld og fimmtudagsmorgun og lokafundur var svo haldinn á föstudag án þess að nefndarmenn hefðu raunverulega fengið tíma eða svigrúm til að kynna sér gögnin, sem eru níu bréf, forseti, líttu á, níu bréf á evrópsku sem hefur vissulega verið farið yfir núna.

Þau viðbrögð formanns menntamálanefndar þegar gögnin voru komin að leyfa ekki umræðu um þau og viðbrögð forseta sjálfs við beiðni um ásjá í því efni eru eitt mál. Annað mál, grafalvarlegt, er sú háttsemi hæstv. menntamálaráðherra og fjármálaráðherra að fela þessi gögn, að leyna þessum gögnum, og höfðu þó sömu ráðherrar, sömu persónurnar, sömu ráðherrarnir lent í nákvæmlega sama máli fyrir ári þegar við komumst á snoðir um svipuð gögn á þeim tíma og tókst að knýja þau til uppgjafar í þessu máli. Samt heldur hæstv. menntamálaráðherra áfram að láta starfsmenn sína leyna þessum gögnum fyrir menntamálanefnd þó að í þeim séu mikilvæg efnisatriði sem við hefðum þurft að vera upplýst um allan þennan tíma.

Ég mótmæli þessu, forseti, og ég tel að þetta sé grafalvarlegt íhugunarefni fyrir Alþingi og varði samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sem bundin eru í stjórnarskrá.