133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:38]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Síðdegis sl. fimmtudag var mér kynnt símleiðis, þar sem ég var stödd erlendis, bréf sem þá hafði borist frá formönnum þingflokka í stjórnarandstöðu, dagsett þann dag. Í bréfinu er þess farið á leit við forseta að hann hlutist til um að afgreiðslufundi menntamálanefndar, sem boðaður var daginn eftir, föstudaginn 12. janúar, kl. 11 yrði frestað til þess að nefndarmenn í minni hluta fengju rýmri tíma til að kynna sér gögn sem nefndinni höfðu borist.

Ég vil taka það fyrst fram að ég tel að forseti hafi tæpast heimild til þess að fresta fundum þingnefnda eða á annan hátt að taka fram fyrir hendur á meiri hluta í þingnefnd varðandi meðferð máls sem er hjá nefndinni. Hafi átt að skilja bréfið svo að forseti ætti að telja um fyrir meiri hluta menntamálanefndar gat ég ekki fallist á það. Þegar þingfundum var frestað fyrir jól hafði tekist samkomulag milli þingflokka um afgreiðslu mála fyrir jól og jafnframt að ljúka 2. umr. um Ríkisútvarpið en fresta 3. umr. fram yfir jólahlé. Sú umræða skyldi hefjast mánudaginn 15. janúar, þ.e. degi fyrr en starfsáætlun sagði fyrir um. Mér er umhugað um að við þetta samkomulag sé staðið. Ég gat því ekki með neinu móti hlutast til um að það drægist fram eftir þessari viku að 3. umr. um Ríkisútvarpið hæfist þvert ofan í það sem ég átti hlut að að semja um fyrir jól.

Meiri hluti menntamálanefndar mat það líka svo að ljúka mætti athugun málsins innan þess tíma sem nefndin hafði og það er vel. Ég tel þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að 3. umr. um málið hefjist í dag eins og dagskrá segir fyrir um. Það hefur komið fram að gögn sem varða afgreiðslu dagskrármálsins hafi borist seint frá ráðuneytum. Því mæli ég ekki bót, en ráðherrar svara fyrir það ef aðfinnsluvert er.

Því hefur einnig verið haldið á lofti að rétt væri að setja reglu um skyldur ráðuneytanna til að afhenda þingnefndum öll gögn sem varða afgreiðslu á þingmáli. Ég vil í því sambandi segja að reynsla mín eftir að hafa verið nefndarformaður alllengi og ráðherra líka er sú að samskipti þingnefnda og ráðuneyta hafa verið góð þegar á heildina er litið. Ég hef ekki orðið þess vör að gögnum væri haldið frá þingnefndum ef þau skiptu máli við afgreiðslu þingmáls og þannig reynt að villa um fyrir þingmönnum og Alþingi. Það kann hins vegar að vera ástæða til þess að fara yfir það verklag sem verið hefur á milli þingnefnda og ráðuneyta og ég lýsi mig reiðubúna til þess. En það er ljóst að ýmislegt er vandasamt í þessum efnum eins og t.d. meðferð trúnaðarupplýsinga og margt er mati háð. Forseti og formenn þingflokka gætu rætt málið í tengslum við endurskoðun þingskapa sem stendur yfir.