133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:42]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Mig langar til þess að bregðast við ýmsu af því sem fram kom hér í máli hv. þm. Marðar Árnasonar vegna framlagningar á þessum svokölluðu ESA-gögnum í tengslum við yfirferð menntamálanefndar um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Hér kom fram í máli hv. þingmannsins að nefndarmenn hefðu ekki fengið tækifæri til að kynna sér gögnin. Ég hlýt að mótmæla slíkum fullyrðingum vegna þess að ég sá sjálfur til þess á miðvikudaginn í síðustu viku að hringt yrði í alla nefndarmenn til að þeim yrði tilkynnt að gögnin væru komin í hólf þeirra. Síðan var haldinn fundur á fimmtudegi þar sem farið var yfir þau gögn með fulltrúum fjármálaráðuneytis og fulltrúum menntamálaráðuneytisins. Mér tókst a.m.k. að sækja þessi gögn og kynna mér þau og ég skyldi ætla að aðrir hv. þingmenn í nefndinni hefðu haft sömu tækifæri til þess. Aðalatriðið er að gögnunum var komið til þingmanna og þeir voru sérstaklega látnir vita af því að þau hefðu borist.

Mér þótti þess vegna dálítið leitt að lesa hér bréf frá formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar, annars vegar vegna misskilnings sem þar kemur fram en hins vegar vegna fullyrðinga sem þar koma fram. Þar er vakin athygli á því að síðasta bréfið hafi ekki verið dagsett fyrr en 9. janúar sem staðfestir að málinu hafi ekki verið lokið hjá ráðuneytunum gagnvart ESA. Það er alveg rétt eðli málsins samkvæmt vegna þess að málinu getur ekki lokið fyrr en frumvarpið er orðið að lögum.

Þá finnst mér leitt að þar komi fram að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í menntamálanefnd teljist forkastanleg, ómálefnaleg og ekki í samræmi við áherslur þingsins um vandaða málsmeðferð vegna þess að ég fullyrði að (Forseti hringir.) ekki hefur verið fundað meira um nokkurt mál, og nokkurt mál verið rannsakað með jafnvönduðum hætti og þetta, málið um Ríkisútvarpið ohf., á þessu kjörtímabili.