133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:49]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég er ákaflega ósáttur við afgreiðslu forsetans á bréfi okkar formanna þingflokka en ég geri enga athugasemd við það að þessi umræða um Ríkisútvarpið fari fram. Það hefði verið hægt af okkar hálfu að krefjast þess að henni væri frestað vegna þess að við gátum ekki fengið að kynna okkur gögn með þeim hætti sem við töldum eðlilegt. En við höfum gert samkomulag og við stöndum við það samkomulag.

Ég dreg ekki í efa að formaður menntamálanefndar er mikill snillingur og meiri en flestir sem í þessum sölum sitja og ég er viss um að þekking hans á enskri tungu er viðamikil. Ég hef svolitla þekkingu á henni líka þó að hún slagi náttúrlega ekki upp í kunnáttu hv. þingmanns. Það tók mig alla helgina að komast í gegnum þá torskildu texta sem var að finna í bréfinu, sem er eins og að bryðja gamla efnafræðitexta, en mér tókst það þó. Af þeim lestri varð ég þess áskynja að þar voru tvö atriði sem ég hefði þurft að leita álits sérfræðinga á en ég fékk það ekki vegna þess að snillingurinn, formaður menntamálanefndar, þurfti ekki annað en skima augum í áttina að þessum hlaða til að komast að því að þar var ekkert sem máli skipti. Máttum við ekki komast að því sjálf? Var það ekki hv. formaður menntamálanefndar sem sagði að þetta væri óásættanlegt, þetta væri ótækt og hann ætlaði að tala yfir hausamótum ráðherrans? Svo kom hann skjálfandi í hnjánum þaðan og reif málið út.

Frú forseti. Það sem skiptir máli eru eftirfarandi aðalatriði: Hvers vegna leyndi menntamálaráðherra vísvitandi þessum gögnum? Hvers vegna var það ekki fyrr en Fréttablaðið ljóstraði upp um tilvist þeirra að nefndin fékk þau loksins? Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins segir í leiðara Fréttablaðsins í gær að þetta sé gert vísvitandi til að koma í veg fyrir að röksemdirnar komi fram vegna þess að þær mundu veikja röksemdafærslu þeirra sem bera stjórnskipulega ábyrgð á málinu, þ.e. hæstv. menntamálaráðherra. Það er það sem þetta gengur út á. Það er verið að leyna okkur gögnum.

Frú forseti. Mér finnst að fresta hefði átt þessari umræðu. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að fara fram á það en réttur okkar hefur verið brotinn.