133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:53]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég kem upp til þess að hrósa hv. menntamálanefnd og þá sérstaklega formanni nefndarinnar fyrir mjög vönduð vinnubrögð. Við vitum það sem störfum á þingi að menntamálanefnd er nú þegar búin að halda á fjórða tug funda út af þessu máli einu. Hún hefur fengið 150 manns, einstaklinga, til að ræða málið og ég veit að formaður nefndarinnar hefur lagt sig fram um að verða við öllum óskum stjórnarandstöðunnar í þessu máli. (Gripið fram í.) Hvað er svo um að ræða núna? Ég mótmæli því harðlega að verið sé að reyna að leyna einhverjum gögnum. Það er engan veginn svo. Undir eins og beiðni barst frá þinginu voru gögnin send og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lét strax vita. (Gripið fram í.) Þingmönnum í menntamálanefnd átti að vera kunnugt að þeir gætu nálgast gögnin strax og þeir fengu vitneskju um þau.

Við áttum líka að vita það og þeir sem eru í samskiptum við ESA að þegar málum er ekki algerlega lokið eru náttúrlega ákveðin bréfleg samskipti á milli stjórnvalda og ESA. Og undir eins og ósk og beiðni barst frá þinginu um að upplýsa þau bréfasamskipti var að sjálfsögðu strax orðið við því. (Gripið fram í.) Meginmálið er að athugasemdir ESA snerta á engan hátt breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í: Jú.) Athugasemdir ESA snerta það ekki. Það skiptir ekki máli hvort við höfum rætt um að halda áfram núverandi fyrirkomulagi á Ríkisútvarpinu eða breyta því í sjálfseignarstofnun eða opinbert hlutafélag, þær athugasemdir sem settar hafa verið fram af hálfu ESA hefðu komið fram hvort sem er. Og rétt er að draga það fram, frú forseti, að á fundi með ESA kom fram af hálfu framkvæmdastjóra samskiptasviðs ESA að stofnunin gerði engar frekari athugasemdir við framgang frumvarps til laga um Ríkisútvarpið ohf. eða fyrirhugaða framkvæmd laganna. (Forseti hringir.) Það er rétt að undirstrika þau orð.