133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Látum vera þó að hæstv. forseti hafi ekki talið nauðsynlegt að hlutast til um tímasetningu fundarins hjá menntamálanefnd. Ég tek að því leytinu til gilda skýringu hæstv. forseta hvað það varðar. Hins vegar er ljóst að hæstv. forseti hefur ekki fengið góðar ráðleggingar hjá meiri hluta nefndarinnar varðandi það hvort hæstv. forseti ætti að fara inn í málið eða ekki, því að málið var vanreifað á lokasprettinum í nefndinni, þ.e. bréfin sem um ræðir fengust ekki opnuð eða lesin eða yfirfarin á fundum nefndarinnar. Eins og hér hefur verið tekið fram er þetta þverhandarþykkur bunki á evrópsku sem menn þurftu að fara yfir. Hann fjallar m.a. um almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins, eftirlit með almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins, sem eru nákvæmlega þau atriði sem nefndarmenn eru búnir að fjalla hvað mest um á fundunum og milli 2. og 3. umr. Þess vegna koma þessi bréf efnislega beint inn í þetta mál og koma okkur öllum við. Það er alvarlegt sem við áttum okkur á þegar við sjáum þessi bréf að í nóvember sl. þegar ríkisstjórnin er að gera lokaatlögu að því að koma málinu í gegnum Alþingi, gera það að lögum, þá standa þessi samskipti við ESA sem hæst. Og þó svo við höfum ekki vitað, almennir nefndarmenn, að þessi samskipti væru til staðar þá komu starfsmenn hæstv. menntamálaráðherra ítrekað á fundi til okkar í nefndina og þeir vissu um þessi samskipti. Þeir vissu út á hvað þau gengu, þeir vissu að við vorum að spyrja um nákvæmlega sömu hluti og þeim var í lófa lagið að upplýsa okkur nefndarmenn um að þessi samskipti stæðu yfir. Það gerðu þeir ekki og það er á ábyrgð hæstv. menntamálaráðherra. Þetta er vont frumvarp, það liggur ljóst fyrir, bréfaskiptin við ESA sýna það og sanna. Þess vegna legg ég það til, eins og við höfum gert frá upphafi í þessu máli, stjórnarandstaðan, að málinu verði vísað frá Alþingi. Þetta er vont mál.