133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:12]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hér hljóðs um fundarstjórn forseta af þeirri einföldu ástæðu að ég sem óbreyttur þingmaður bað um orðið strax í upphafi umræðunnar um störf þingsins en ég var ekki settur á lista. Það var fyrir hreina tilviljun að ég labbaði fram til að kíkja á sjónvarpið til að sjá hvar á listanum ég væri. Ég trúi því að frú forseti hafi ekki séð það mjög vel þegar ég gaf merki.

Þau skilaboð komust greinilega ekki til skila hérna á næstu hæð. En þá fór ég auðvitað og gerði athugasemd við þetta og bað um að vera settur á mælendaskrá, sem var gert. En samkvæmt reglum er umræðutíminn takmarkaður við u.þ.b. 20 mínútur og svo óheppilega vildi til að ég var einmitt á línunni þar sem skorið var.

Að vísu er það þannig að hv. formaður menntamálanefndar, sem situr á einum bekk fyrir framan mig hér í salnum, benti mér á að það væri þannig að þeir sem sætu í menntamálanefnd ættu einhvern sérstakan forgang. (Gripið fram í.) Það skildi ég nú heldur betur.

Ég vil eiginlega ekki trúa því að hér í hinu ágæta Alþingi gildi einhver stéttaskipting. (Gripið fram í.) Þetta er kannski einhver misskilningur hjá mér, (SKK: Ekki vera að hafa eitthvað eftir mér sem …) ég hef þetta bara eftir eins og ég skildi það. Hv. þingmaður getur þá auðveldlega komið hingað upp í staðinn fyrir að gjamma fram í þegar hann hefur ekki orðið, hann getur einfaldlega komið hérna upp og útskýrt nákvæmlega hvað það var sem hann sagði. Að þetta væri sem sagt ekki svona regla, að þeir sem sitja í menntamálanefnd hefðu einhvern sérstakan forgang. En þannig skildi ég formann menntamálanefndar og ég held að það hafi ekki verið sérstaklega flókið.

Frú forseti. Nú er ég náttúrlega búinn að eyða tíma mínum í að tala um fundarstjórn forseta og ég geri þessa athugasemd. Ég vona að það sé tekið til greina.

En þetta er kannski ekki eina dæmið um slæm vinnubrögð vegna þess að við höfum upplifað það hér í dag, og þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa bent á það ítrekað, að þetta er skólabókardæmi um slæm vinnubrögð á Alþingi Íslendinga og auðvitað sérstaklega í menntamálaráðuneytinu. Að þar skuli haldið til baka gögnum og síðan koma rökin, þið báðuð aldrei um gögnin. En hvernig átti fólk að vita að gögnin væru til ef aldrei er sagt frá því? Það er Fréttablaðið sem þarf að upplýsa okkur um að þessi gögn séu til. Þá fyrst kemur í ljós, og viku seinna fá nefndarmenn gögnin afhent.

Þetta er auðvitað afar einkennilegt mál en ekkert einsdæmi, frú forseti. (Forseti hringir.) Ekkert einsdæmi sérstaklega um þetta frumvarp um Ríkisútvarpið sem núna heitir (Forseti hringir.) Ríkisútvarpið ohf.