133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:16]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og málið hefur verið að þróast í dag og síðustu daga er einboðið að taka stöðu þess til endurskoðunar. Nokkrum dögum fyrir síðustu helgi var í nefndinni lagt fram sáttaboð af hendi fulltrúa stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd. Hv. þm. Mörður Árnason gerði grein fyrir því að stjórnarandstaðan væri til í að fresta málinu fram yfir kosningar. Kosið verður eftir 120 daga, eftir fjóra mánuði og það, virðulegi forseti, að ætla að samþykkja jafnróttæka og viðsjárverða löggjöf og þessa, með gildistöku 1. apríl, mánuði og tólf dögum fyrir kosningar, er einfaldlega fráleitt. Í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram, þ.e. að tveir hæstv. ráðherrar liggja undir ámæli um að hafa leynt Alþingi gögnum, þeir hafa ekki með neinum hætti náð að hreinsa sig af þeim ásökunum heldur einfaldlega setið undir þeim. Ekkert bendir til annars en að hæstv. menntamálaráðherra hafi vísvitandi leynt tilvist gagna og bréfasamskipta við ESA sem snúa að því … (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er að færa rök fyrir máli mínu.

(Forseti (SP): Forseti vekur enn og aftur athygli á að hv. þingmaður kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta og ber að halda sig við það efni.)

Þess vegna, virðulegi forseti, tel ég að heppilegt væri að þinginu gefist ráðrúm til að endurskoða málið, gefa hæstv. ráðherra ráðrúm til að skýra frá því af hverju gögnunum var leynt. Af hverju var svo mikið lagt upp úr því að Alþingi vissi ekki af þessum samskiptum? Taka á afstöðu til grundvallarmáls sem er rekstrarform Ríkisútvarpsins út frá því hvort þessar breytingar ógni tilvist Ríkisútvarpsins til framtíðar. Þetta gæti orðið til þess að Ríkisútvarpið sæti uppi með, út af óeðlilegri samkeppnisstöðu og niðurgreiddri auglýsingasölu, himinháar skaðabætur sem leiddu að lokum til þess að tilvist útvarpsins sem slíks væri ógnað verulega. Þess vegna er svo mikilvægt að málið sé tekið allt til gagngerrar endurskoðunar og ráðherra geri hér hv. Alþingi grein fyrir því: Af hverju var gögnunum leynt? Af hverju var svo mikið lagt upp úr því að þingið fjallaði um málið strax í dag þegar ljóst er að gögnin vantaði um er rætt?