133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:19]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Hér hefur komið fram að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa farið þess á leit við forseta að þessari umræðu verði frestað til að tilteknir aðilar geti kynnt sér gögn sem við höfum verið að ræða. Ég ætla að leyfa mér að gera ágreining um það mál. Ég sé ekki ástæðu til, frú forseti, að þessari umræðu verði frestað. Ég ætla reyndar ekki að gera ágreining við hv. þm. Össur Skarphéðinsson um hvort ég sé snillingur eins og hann talaði um.

Ég ætla hins vegar að gera ágreining um nokkuð sem hann hefur hér haldið fram um það og reyndar fleiri, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem situr nú í nefndinni. Hv. þm. Össur kom þar öðru hverju inn og hefur haft uppi stór orð um að menn hafi gengið um hýddir og lamdir af ráðherrum, auðvitað er það ekki rétt. En báðir halda því fram, frú forseti, (Gripið fram í.) að menn hafi verið leyndir gögnum. Hv. þm. spyr: Af hverju leyndin? Af hverju var verið að leyna gögnunum?

Hvað fór ég yfir áðan, hv. þm. Össur Skarphéðinsson? Ég gerði sérstakar ráðstafanir til þess að starfsmenn þingsins mundu hringja í nefndarmenn til að tilkynna þeim sérstaklega að gögnin væru komin í þeirra hólf, í þeirra vörslu. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það að gögnin voru lögð fram, þeim var ekki leynt, þau voru lögð fram. (ÖS: Bara annað heftið.) Þau voru lögð fram.

Ég leyfi mér að mótmæla því líka sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hélt hér fram, að hér væri um einhver grundvallargögn að ræða. Ja, heyr á endemi, þetta er algjört rugl. Ég fullyrði að þetta er algjört rugl. Þarna er lýst samskiptum milli ráðuneytanna og Eftirlitsstofnunar EFTA um tæknileg atriði sem varða þetta mál. Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér gögnin áður en hann kallar þau grundvallargögn.

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði að hlutverk forseta ætti að vera að sannfæra meiri hlutann um að málið væri ekki klárt til afgreiðslu. Hv. þm. Hlynur Hallsson, sem hefur ekki tekið neinn þátt í umræðum um þetta mál eða vinnslu þess, taldi sig í stöðu þess að lesa okkur pistilinn um hvernig ætti að vinna málin hér í þinginu, maður sem ekkert hefur komið að vinnslu þess.

Ég vil ég upplýsa hæstv. forseta um að ég tók saman upplýsingar um hve mikið hefði verið fjallað um þessi málefni á þinginu. Samtals er búið að halda þar 39 fundi. Við höfum fengið 150 gesti til þess að fjalla um öll efnisatriði þessa máls og sumir hafa tjáð sig um það tvisvar eða þrisvar. Það er búið að ræða þetta mál hér í þingsölum í 73,37 klst. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ef þetta er eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson kallar forkastanleg og ómálefnaleg vinnubrögð og ekki vönduð málsmeðferð, þá spyr ég: Hvar hefur hv. þingmaður verið? (Gripið fram í.)

(Forseti (SP): Forseti minnir þingmenn hv. enn og aftur á að þeir ræða hér um fundarstjórn forseta sem hefur nú staðið yfir í um 20 mínútur.)