133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:26]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Nú hafa komið fram í ræðum þingmanna, undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta, áskoranir um að forseti taki til alvarlegrar íhugunar að vísa til frekari umfjöllunar.

Við sem hér erum vitum að það hefur tekið okkur tvö ár að fjalla um þetta hugarfóstur ríkisstjórnarinnar, Ríkisútvarpið sem hét einu sinni sf., einu sinni hf. og núna ohf. Í tvö ár hefur þetta frumvarp gengið inn í þingsali, fyrir nefndir, inn í ráðuneytið, aftur hingað til þingsins, inn í nefnd, aftur til þingsins o.s.frv. Breytingatillögur hafa komið í stríðum straumum frá meiri hlutanum vegna þess að málið hefur verið vanreifað á öllum stigum.

Ég ráðlegg hæstv. forseta að skoða alvarlega hvort þetta stagbætta frumvarp, þetta meingallaða mál, megi ekki bara bíða eins og stjórnarandstaðan hefur lagt til og við tökum fyrir aðkallandi mál sem ríkisstjórnin vill koma í gegn hér á snörpu og stuttu vorþingi. Ég nefni til sögunnar mál á borð við Vatnajökulsþjóðgarð eða Náttúruminjasafn Íslands, vegáætlun og samgöngubætur.

Er ekki fjöldi mála í málaskrá okkar þingmanna sem væru þessi virði að ræða þau? Ég nefni mál sem eru í nefndum og eru langt komin í vinnslu, almenn hegningarlög. Halda menn að við þurfum ekki einhvern tíma til að ræða heildarlög um heilbrigðisþjónustuna, um hafnalögin eða sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands. Hér er fjöldi brýnna mála sem við erum fús að ræða.

Það er bara þráhyggja ríkisstjórnarinnar að ætla sér að koma ríkisútvarpsfrumvarpinu í gegn, sem er stagbætt og mjög vont og veldur miklum deilum. Það væri hægur vandi fyrir hæstv. forseta Alþingis Íslendinga að höggva á þennan hnút með því að vísa þessu máli til frekari umfjöllunar og taka fyrir þau mál sem brýnna er að ræða.