133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:29]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Í tilefni af síðustu orðum hæstv. forseta þá veit forseti mætavel að það væri hægðarleikur að ljúka umræðunni um mál þetta á skömmum tíma í samkomulagi ef vilji væri fyrir hendi. Ég ætla ekki að orðlengja um það, frú forseti.

Hv. formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, lét móðan mása um að rangt væri af stjórnarandstöðunni, hann tiltók sérstaklega hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, að halda því fram að vinnubrögð hans og forseta hefðu verið ómálefnaleg og forkastanleg. Hvað kallar hv. þingmaður þetta sjálfur í fyrirsögn í Fréttablaðinu? „Ótækt að afhenda ekki ESA-gögnin fyrr.“ Það er hv. formaður menntamálanefndar sem hefur fellt þyngstu dómana um þetta starfslag hæstv. menntamálaráðherra. Hann segir það ótækt og óásættanlegt.

Af því að hv. þm. Mörður Árnason er vel að sér í íslensku máli, mundi hann ekki fallast á með mér og forseta að það að mál sé ótækt og óásættanlegt sé heldur ómálefnalegt og jafnvel forkastanlegt? Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, þótt hann sé góður í ensku, ætti a.m.k. að kynna sér rætur sinnar eigin tungu áður en hann leggur vitlausan skilning í eigin orð. Eða heldur hv. þingmaður, þegar hann ræðst svona gegn vinnulagi ráðherrans, að hann sé að bera hrós á hana? (Gripið fram í.)

Frú forseti. Enn þá eimir eftir í þessari umræðu af svörum hæstv. menntamálaráðherra. Hvernig í ósköpunum stendur á því, frú forseti, af því að við erum öll að reyna að greiða fyrir þingstörfum, að hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki kjark til að segja okkur frá því af hverju ráðuneytið lét ekki þessi gögn af hendi? Hún átti að vita, af reynslunni, að eftirspurn væri eftir því. Hér varð mikill hávaði og læti í fyrra þegar hið sama gerðist. Hæstv. ráðherra virðist ekki læra af reynslunni.

Frú forseti. Ákveðin atriði í umræðunni eru vanreifuð, t.d. samkeppnismál, eins og hefur komið fram í fjölmiðlum síðustu daga. Það er athyglisvert að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi forsætisráðherra segir um það í ritstjórnargrein í gær að annaðhvort sé ráðherrann vísvitandi að halda leyndum upplýsingum um samkeppnismálin eða hún, lögfræðingurinn sjálfur, hafi ekki fengið heiðarlega lögfræðilöggjöf í málinu.

Með öðrum orðum, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins segir: Annaðhvort er hæstv. ráðherra vísvitandi að halda ákveðnum staðreyndum leyndum eða að starfsmenn hennar veita henni óheiðarlega ráðgjöf. (Gripið fram í: Er þetta um fundarstjórn forseta?) (Forseti hringir.) Þetta er um fundarstjórn forseta, frú forseti, vegna þess að ef þetta yrði upplýst mundi það greiða töluvert fyrir umræðu um (Forseti hringir.) málið eins og ég veit að ég og hæstv. forseti erum sammála um.