133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:36]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess einmitt að hvetja hæstv. forseta til að halda áfram með dagskrána en það má í rauninni líka segja að ég hefði getað kvatt mér hljóðs til að bera af mér sakir. Það er varðandi þá fullyrðingu sem hefur verið haldið fram í þessum ræðustól að ég sé vísvitandi að halda gögnum leyndum fyrir þinginu. Hvaða vitleysa er þetta? Þetta er rangt, þetta er beinlínis rangt. (Gripið fram í.) Það er gott að vita að hv. þm. Össur Skarphéðinsson les leiðara Fréttablaðsins eins og hann hefur örugglega drukkið móðurmjólkina á sínum tíma, en þetta er vísvitandi rangt. Það er rangt af þingmönnum að halda þessu fram því það hefur engum gögnum verið (Gripið fram í.) leynt í þessu máli. Undir eins og ósk kom fram voru gögnin að sjálfsögðu send hv. menntamálanefnd. Það er líka rétt að draga fram að það sem kemur fram í þeim bréfum er þegar reifað í þeim gögnum sem hv. menntamálanefnd hefur undir höndum og hún veit nákvæmlega um hvað þau snúast.

Mér finnst þetta því ekki bara vera rangt, mér finnst þetta vera ótækt. Mér finnst þetta vera óforkastanlegt og ef ég nota orðskýringu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan þá þýðir það ómálefnalegt. Mér finnst það gersamlega ómálefnalegt að koma með þetta hingað upp. Þetta er ekkert annað en fyrirsláttur og við vitum það vel. Ef það hefði ekki verið umræðan um ESA-gögnin hefði örugglega eitthvað annað verið tínt til til að hindra það að við komumst í málefnalega umræðu. Ég spyr: Er það lýðræðislegt þegar þingið er búið að ræða málið á 39 fundum í menntamálanefnd fyrir utan alla þingfundina? Er það lýðræðislegt þegar það er búið að fá til sín um 150 gesti til að ræða málefnalega um málið? (Gripið fram í.) Ég þarf ekkert að minna á skoðanakannanir þar sem meiri hluti þjóðarinnar er fylgjandi málinu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson ætti að hafa það hugfast. (Gripið fram í.) Ég spyr: Er það lýðræðislegt þegar búið er að fjalla hér svo mikið um eitt einstakt mál að það fái ekki einu sinni að komast til lýðræðislegrar afgreiðslu í þinginu?

Það er alveg rétt sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á að hér bíða mörg mikilvæg málefni en stjórnarandstaðan kemur í veg fyrir að við ræðum þau merku mál sem hv. þingmaður kom inn á. (Gripið fram í: Hver eru þau?) Við erum að tala um sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands, við erum að tala um Náttúruminjasafnið, auk annarra mála sem koma frá öðrum ráðherrum.

Ég vil líka benda á það, hæstv. forseti, að Norðmenn eiga til að mynda í svipuðu máli gagnvart ESA og við og ekki er hlutafélag að þvælast fyrir ESA á þeim vettvangi. (Gripið fram í.) Nei, það er sko ekki hlutafélag sem er að þvælast fyrir ESA á þeim vettvangi. Þetta snýst allt um það sama, þetta er ekkert annað fyrirsláttur til að koma í veg fyrir að þingið, sem er búið að fjalla svo mikið um þetta mál að menn ættu að gjörþekkja það, geti greitt atkvæði um málið. (Gripið fram í.) Er það lýðræðislegt?