133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:39]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það sem verið er að ræða núna eru auðvitað hin slæmu vinnubrögð sem hv. varaformaður menntamálanefndar lýsti svo vel áðan, slæm vinnubrögð hæstv. menntamálaráðherra sem spillt hafa fyrir framgangi þessa máls og gert það erfiðara í þingin, og gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga á málsmeðferðina en aðalatriðið er að varaformaður menntamálanefndar kom hér upp og snupraði ráðherrann heldur betur fyrir slæleg vinnubrögð. Bragð er að þá barnið finnur, ef svo má að orði komast. Það er grundvallaratriðið í þessu og það er líka grundvallaratriði í því sem hv. formaður menntamálanefndar sagði í blaðaviðtali, að það sé bæði ótækt og óásættanlegt að ráðuneytið skyldi leyna þessum gögnum svo lengi sem raun ber vitni. Var ef til vill fjallað um það hjá leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins að halda gögnunum leyndum? Var það svoleiðis? (Gripið fram í.) Ja, það er spurning hvort hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er orðinn stjórnarmaður í leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið gerð að umtalsefni undanfarin ár og þjóðin er að fá vitneskju um núna hvernig starfaði á árum áður. Það er grundvallaratriði, virðulegi forseti, að ráðuneytið hefur verið að blekkja þing og þjóð með því að halda þessum gögnum leyndum. (Gripið fram í.) Það tók allt að því viku að fá gögnin fram frá því að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins snupraði hæstv. menntamálaráðherra í grein í Fréttablaðinu. (GÓJ: Hvernig var þetta með leyniþjónustuna? Ég vil fá að heyra það aftur.) Ég trúi því ekki, virðulegi forseti, að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, sem hefur komið oft upp í hinum ýmsu málum og lagt þar lóð á vogarskálina til að liðka fyrir þingstörfum og öðru og síðast en ekki síst vegna þess að hv. þingmaður hefur vit á öllum málum sem rædd eru á Alþingi, sé svo illa haldinn eftir jólahátíðina að hann komi ekki upp orði. (Gripið fram í.) Ég trúi því ekki. Þó að menn hafi kannski eitthvað þyngst vona ég að það hafi ekki farið þannig með þindina í þeim að þeir komi ekki upp orði, virðulegi forseti.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mjög mikilsvert atriði inn í þessa umræðu sem hv. varaformaður menntamálanefndar, Dagný Jónsdóttir, sagði áðan um málsmeðferðina. Það er grundvallaratriði. Og þegar hæstv. forseti getur séð bæði það sem haft er eftir formanni menntamálanefndar í Fréttablaðinu og það sem hv. varaformaður menntamálanefndar sagði hér, þá er full ástæða til að endurskoða málin og málsmeðferðina hér. Það kom líka fram hjá hæstv. menntamálaráðherra áðan að fleiri bréfa er að vænta frá ESA, þau eru ekki öll komin fram. (Gripið fram í.) Og ef búið verður að samþykkja málið, ef búið verður að troða því í gegn með aðstoð hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar og fleiri framsóknarmanna og eitthvað kemur svo fram í nýju bréfunum, hvað verður þá gert? Verða bréfin þá, hv. þingmaður, bara send til leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins til geymslu?

(Forseti (SP): Enn og aftur minnir forseti hv. þingmenn á að þeir eru að ræða um fundarstjórn forseta og ber að halda sig við það umræðuefni.)