133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:46]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða fundarstjórn forseta. Hv. formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, hafði eitthvað út á ræðu mína að setja áðan þegar við töluðum saman um störf þingsins. Hann fór m.a. yfir tölfræði málsins og minntist á að 39 fundir hefðu verið haldnir í menntamálanefnd og að um málið hefði verið rætt samtals í þrjá sólarhringa í sölum þingsins.

Þetta er efalaust allt satt og rétt. Ég held að ég hafi verið á flestum fundum menntamálanefndar um þetta mál og ég held að ég hafi líka fylgst með lunganum úr þeim löngu umræðum sem hér hafa staðið yfir.

Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir þessar ábendingar frá hv. formanni menntamálanefndar, þá leyfi ég mér virkilega að efast um að málið sé fyllilega frágengið og að frumvarpið sé hreinlega hæft til þess að verða afgreitt sem lög frá hinu háa Alþingi.

Það sem sannfærir mig um það er að eftir allan þennan tíma, 39 fundi í menntamálanefnd og 72 klukkutíma í umræðum í þinginu, þá standa enn yfir bréfaskriftir á milli ráðuneyta á Íslandi og Eftirlitsstofnunar EFTA.

Hér erum við með þessi bréf sem ritstjóri Fréttablaðsins segir, og ég hygg að hann hafi eitthvað fyrir sér í því, að hafi verið haldið leyndum fyrir Alþingi. Þetta eru 53 blaðsíður af þéttskrifuðum texta. Elsta bréfið er frá því í janúar 2006 og nýjasta bréfið er ekki skrifað fyrr en 9. janúar síðastliðinn, þ.e. nokkrum vikum eftir að ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlaði sér að afgreiða lögin um Ríkisútvarpið frá hinu háa Alþingi.

Mér finnst, virðulegi forseti, þetta benda eindregið til þess að málið sé ekki nægilega vel reifað, að það sé ekki tilbúið. Þess vegna hlýtur það að vera ábyrgðarhluti hjá forseta þingsins að fallast á að málið skuli nú vera tekið á dagskrá.

Ég veit að forseta þingsins er mjög annt um svipinn á störfum Alþingis. Þegar svona hneyksli verður, sem meira að segja formaður menntamálanefndar tekur undir að hafi orðið þar sem hann er mjög harðorður í Fréttablaðinu vegna þess sem hefur gerst, að gögnum er haldið leyndum fyrir Alþingi á síðustu metrunum í málsmeðferðinni, þá hefði nú litið betur út að flokkssystkinin, þ.e. hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefðu komið sér saman um að kannski væri betri svipur á því fyrir þingið að bíða aðeins með að afgreiða málið út úr menntamálanefnd, að doka aðeins við.

Ef þetta hefði nú þrátt fyrir allt verið afgreitt úr menntamálanefnd þá hefði það samt verið betra fyrir ásýnd þingsins að bíða með að málið yrði tekið til 3. umr. Þegar svona skandall á sér stað, (Forseti hringir.) þessi bréfaskipti standa yfir og þingið fær ekki að vita um þau, þá er það mjög slæmt mál fyrir Alþingi.