133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:49]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fundarstjórn forseta. Af því að virðulegur forseti benti mér á að kynna mér þingsköpin betur ákvað ég að gera það og var svo heppinn að vera einmitt með þingsköp Alþingis frá 1993 við höndina. Eftir stutta leit fann ég einmitt kaflann um athugasemdir um störf þingsins sem við vorum að ræða um áðan þegar ég kvartaði yfir að hafa ekki fengið að komast að í þeirri umræðu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í upphafi fundar, áður en gengið er til dagskrár, geta þingmenn gert athugasemdir er varða störf þingsins. Enginn má tala oftar en tvisvar og ekki lengur en tvær mínútur í senn. Umræður um athugasemdir mega ekki standa lengur en í tuttugu mínútur.“

Hérna stendur ekki neitt um að hægt sé að færa þingmenn niður fyrir aðra þingmenn. Þess vegna hlýt ég, frú forseti, að gera athugasemd við þessa málsmeðferð. Nema einhverjar aðrar óskrifaðar reglur séu í gangi sem ég þekki ekki. Mér skilst t.d. að þegar hæstv. ráðherra óskar eftir að fá orðið þá sé það sjálfsagt og hann komist þá fram fyrir aðra. Ég get alveg skilið þá reglu, sérstaklega ef hæstv. ráðherra ætlar að biðjast afsökunar á slæmum vinnubrögðum eða að hafa haldið aftur gögnum. (Gripið fram í.) Þá finnst mér auðvitað alveg sjálfsagt að það sé leyft og að tekið sé tillit til þess.

En að öðru leyti finnst mér afar einkennilegt að hægt sé að hringla með röð þeirra sem biðja um orðið. Vegna þess að ég veit ekki til þess að það sé einhver stéttaskipting á Alþingi og einhverjir hafi frekari rétt á því að fá að taka til máls í umræðum en aðrir. Mér þætti það mjög miður ef slíkar óskrifaðar reglur væru í gangi. Frú forseti. Ég bið um útskýringar á þessari fundarstjórn.

Af því að virðulegur forseti kom einnig inn á það í ræðu sinni, eða í svörum öllu heldur, að þingmenn stjórnarandstöðunnar væru að tefja fyrir störfum þingsins og væru jafnvel að koma í veg fyrir að önnur mjög mikilvæg mál, kannski miklu mikilvægari mál, kæmust á dagskrá, þá hlýt ég að gera athugasemd við þann málflutning.

Mér finnst þetta afar einkennilegt vegna þess að það eru ekki þingmenn stjórnarandstöðunnar sem ákveða röð þingmála hér. Það erum ekki við sem ákveðum hvaða mál eru mikilvæg fyrir ríkisstjórnina til að setja á dagskrá. Nei, það gerir virðulegur forseti, að vísu í samkomulagi, vona ég, við þingflokksformenn almennt.

Hins vegar er það alveg út í hött að segja að þingmenn stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) geti komið í veg fyrir að mikilvæg mál séu rædd hér. Það hlýtur að vera á valdi ríkisstjórnarinnar að setja fram og draga til baka (Forseti hringir.) mál sem þykja minna mikilvæg eða jafnvel ótæk í þingsölum.