133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:52]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þær kröfur sem hafa komið fram um að fresta umfjöllun þessa máls hafa ekki verið studdar nægilega góðum rökum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom fram með þrenn rök. Í fyrsta lagi að gögnum hafi verið leynt. Í öðru lagi að lögfræðingar hefðu vaxandi efasemdir um lögfræðilega hlið málsins. Og í þriðja lagi fjallaði hann um álit útvarpsstjóra.

Hæstv. forseti. Það hefur komið alveg fullkomlega fram í umræðunni og verið skýrt mjög nákvæmlega að þessum gögnum sem nú hafa verið til umræðu lengi dags var ekki leynt. Þau komu fram fyrir nefndina og nefndin hafði tækifæri til að skoða þau. Þau rök halda því ekki gagnvart því að fresta málinu.

Þau tvenn önnur rök sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom fram með eru efnisatriði sem eiga mjög vel heima í umræðunni, í 3. umr. sem við ætlum nú að fara að taka til við og er komin full ástæða til að hefja nú þegar klukkan er að verða þrjú og við erum búin að standa hér í einn og hálfan tíma að ræða alls konar formsatriði. Nú hljótum við að vera komin að einhverri niðurstöðu um að það sé hægt að halda umræðunni áfram. Það er alls engin ástæða til fyrir hæstv. forseta að fresta þessari umræðu og ég get alls ekki fallist á þau rök sem hafa komið fram. En þau voru þó einna skýrust hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni.