133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:01]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf.

Málið var sent til meðferðar í nefndinni að lokinni 2. umr. samkvæmt samkomulagi þingflokkanna á Alþingi. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneyti, Sigurbjörn Magnússon hrl., Gunnar Björnsson, skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis, Sigurð Þórðarson og Jón Loft Björnsson frá Ríkisendurskoðun, Ara Edwald, forstjóra 365 miðla, Magnús Ragnarsson frá Skjá einum, Guðmund Gylfa Guðmundsson, framkvæmdastjóra fjármáladeildar Ríkisútvarpsins, Þorstein Þorsteinsson, forstöðumann markaðssviðs Ríkisútvarpsins, Baltasar Kormák frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Pál Gunnar Pálsson forstjóra og Guðmund Sigurðsson, aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins, Árna Stefán Jónsson, varaformann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Áslaugu Björgvinsdóttur, dósent við Háskólann í Reykjavík, Sigurjón Högnason frá ríkisskattstjóra, Ólaf E. Friðriksson, Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti og Jón Vilberg Guðjónsson og Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra frá menntamálaráðuneyti.

Það er töluverður fjöldi gesta sem nefndin hefur kallað á sinn fund núna í þessari fundahrinu sem hefur staðið frá því þing fór heim í desember og til dagsins í dag eða fram á síðasta föstudag. Nefndin hefur haldið alls 16 fundi um málið á þessu löggjafarþingi og fengið á sinn fund 50 gesti, suma tvisvar eða allt upp í þrisvar, jafnvel fjórum sinnum til að svara spurningum nefndarmanna sem hafa verið margar og efnismiklar. Við erum að ræða málefni Ríkisútvarpsins þriðja árið í röð og eins og ég gat um áðan hefur verið fjallað um málið í tæplega 74 klukkustundir í þingsalnum. Haldnir hafa verið 39 fundir og 150 gestir fengnir á þá fundi sem ég tel vera vandaðri, efnismeiri og tímafrekari umfjöllun um eitt þingmál en þekkst hefur á þessu kjörtímabili. Ég leyfi mér líka að halda því fram að fara þurfi langt aftur til að finna aðra eins meðferð á sambærilegu máli. En ég fullyrði að á þessu kjörtímabili hafi ekkert mál fengið jafnmikla og vandaða yfirferð og þetta frumvarp.

Með frumvarpinu er eins og kunnugt er lagt til að ríkisstofnunin Ríkisútvarpið verði lögð niður og að opinbert hlutafélag verði stofnað um rekstur hennar. Frumvarp um Ríkisútvarpið er nú til umfjöllunar í þriðja sinn eins og ég gat um áðan og var frumvarpið fyrst lagt fram á 131. löggjafarþingi. Ég vil áður en lengra er haldið þakka nefndarmönnum fyrir samstarfið í nefndinni sem hefur verið að mínu mati býsna gott og þó að það hafi hvesst á stundum milli manna hygg ég að nefndarvinnan hafi tekist býsna vel og færi ég nefndarmönnum þakkir mínar fyrir samstarfið enda sjáum við nú fram á að þessu máli ljúki í umræðum á þingi og verði brátt að lögum frá Alþingi.

Meiri hlutinn leggur til tvenns konar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði 98. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, gildi um nefskattinn. Í greininni er m.a. kveðið á um skyldur skattstjóra til að tilkynna álagningu opinberra gjalda og auglýsa lok álagningar en slík auglýsing markar upphaf kærufrests. Með breytingunni er tryggt að málsmeðferðarreglur tekjuskattslaga gildi um nefskattinn og er orðalag hennar í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga, nr. 125/1999, um málefni aldraðra sem er fyrirmynd ákvæðisins.

Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæðum frumvarpsins sem fjalla um niðurfellingu laga nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið. Meiri hlutinn leggur til að lög um Ríkisútvarpið falli brott 1. apríl 2007 í stað 1. febrúar 2007. Með þeim breytingum er nægur tími tryggður fyrir Alþingi til að kjósa menn til setu í stjórn, halda stofnfund og að lokum skrá opinbera hlutafélagið formlega. En þessar breytingar helgast náttúrlega af því að málinu var frestað í desembermánuði síðastliðnum og þegar af þeirri ástæðu þurfti að grípa til þeirra aðgerða sem fram koma á sérstöku þingskjali með breytingartillögum, þ.e. að fresta þessum dagsetningum frá því sem áður var.

Frú forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali eins og ég vék að.

Undir framhaldsnefndarálitið rita ásamt þeim sem hér stendur hv. þm. Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðjón Ólafur Jónsson, Gunnar Örlygsson og Sæunn Stefánsdóttir.