133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:08]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. formanni menntamálanefndar að frumvarpið hefur fengið mikla umræðu og margir gestir verið kallaðir til en samt hafa engar breytingar verið gerðar á frumvarpinu til að draga úr óvissu um réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Við höfum á undanförnum vikum verið vitni að deilu um óljós réttindi og kjör starfsmanna vegna hlutafélagavæðingar ríkisstofnana og má þar nefna t.d. Flugstoðir ohf. og Matís ohf. Þess vegna vil ég fá að spyrja hv. formann menntamálanefndar: Telur hann að réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins skerðist ekki ef þetta frumvarp, Ríkisútvarpið ohf., verður að lögum?